Játar sök en ætlaði sér ekki að brjóta lög

Brittney Griner var handtekin í febrúar í Rússlandi. Hér sést …
Brittney Griner var handtekin í febrúar í Rússlandi. Hér sést hún mæta í réttarsal í Kímki í dag. AFP

Bandaríska körfuknattleikskonan Brittney Griner játaði í dag að hafa smyglað fíkniefnum til Rússlands, en hún mætti rússneskan dómstól í dag. Griner neitar aftur á móti að hafa ætlað sér að brjóta lögin. Málið hefur gert lítið til að draga úr spennu á milli bandarískra og rússneskra stjórnvalda. 

Griner var handtekin í febrúar, aðeins nokkrum dögum áður en Rússar réðust inn í Úkraínu. Hún á 10 ára fangelsi yfir höfði sér verði hún sakfelld, en henni er gefið að sök að hafa flutt með sér rafrettuhylki til landsins. 

Griner, sem er stjarna í WBNA-körfuboltadeildinni, játaði í dag sök en lagði á það áherslu að hún hefði aldrei ætlað að gerast brotleg við lög. „Ég var að flýta mér að pakka saman og hylki enduðu fyrir slysni í töskunni minni,“ sagði hún í réttarsal í bænum Kímki, sem er skammt frá höfuðborginni Moskvu, í dag. 

Verjandi hennar hefur farið fram á vægustu refsingu sem völ er á. 

Hann sagði að Griner hefði þótt gott að fá bréf frá Biden Bandaríkjaforseta, sem sagði í gær að það yrði forgangsmál hjá honum að fá Griner aftur heim til Bandaríkjanna. 

Stjórnvöld í Rússlandi svöruðu því með því að segja að sú mikla athygli sem mál Griner hafi fengið í Bandaríkjunum muni ekki hjálpa henni. 

Biden ræddi símleiðis við eiginkonu Griner þar sem hann sagði að handtaka Griner hefði verið ólögmæt og að henni væri haldið við óviðunandi aðstæður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert