Eiginkonan „yfirbuguð af tilfinningum“

Cherelle Griner var við hlið Bandaríkjaforseta þegar hann greindi frá …
Cherelle Griner var við hlið Bandaríkjaforseta þegar hann greindi frá lausn eiginkonu hennar. AFP/Brendan Smialowski

Cherelle Griner, eiginkona körfuknattleikskonunnar Brittney Griner, sem var sleppt úr rússnesku fangelsi við fangaskipti á milli Bandaríkjanna og Rússlands, sagðist „yfirbuguð af tilfinningum“ í Hvíta húsinu í dag. Hún stóð við hlið Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, þegar hann greindi formlega frá lausn Griner.

Hún sagðist hafa upplifað mikla þrekraun frá því eignkona hennar var handtekin. Þetta hefði verið erfiðasti tími lífs hennar.

Biden sagði Griner í góðu andlegu ástandi en þyrfti nú þurfa tíma til að jafna sig eftir það „óþarfa áfall“ sem hún hefði orðið fyrir.

„Hún þarf að fá næði til verja tíma með ástvinum sínum til að jafna sig á því að hafa verið dæmd í fangelsi fyrir rangar sakir,“ sagði Biden.

Paul Whelan situr enn eftir 

Í stað Griner fengu Rússar Victor Bout afhentan, alræmdan vopnasala, sem aplánaði 25 ára dóm í Bandaríkjunum fyrir að hafa selt hryðjuverkasamtökum og uppreisnarhópum vopn.

Bandaríkjamenn eiga enn eftir að fá Paul Whelan, fyrrverandi bandarískan sjóliða, lausan úr rússnesku fangelsi og minntist Biden á að þó Brittney væri laus sæti hann enn eftir.

Whelan var handtekinn í Moskvu árið 2018 og sakaður um njósnir, þegar hann var þar í brúðkaupi ásamt konu sinni.

„Okkur hefur enn ekki tekist að tryggja lausn Paul, en við gefumst ekki upp. Við gefumst aldrei upp,“ sagði Biden.

mbl.is