Sýnir fram á hve miklir hagsmunir voru í húfi

Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump.
Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump. AFP/Brendan Smialowski

Á heimili Donalds Trumps, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, voru fimmtán kassar af gögnum, þar á meðal 184 háleynileg skjöl sem varða þjóðaröryggi Bandaríkjanna. Áritun Trumps var á einhverjum skjalanna. Lögreglan hafði rökstuddan grun um að á heimili hans væri að finna fleiri leynileg gögn.

Þetta kemur meðal annars fram í eiðsvarinni yfirlýsingu þeirri sem studdi húsleitarbeiðni alríkislögreglunnar í Bandaríkjunum, til leitar á heimili Trumps. Hefur hún nú verið opinberuð og er yfirlýsingin talin varpa ljósi á ný atriði tengd rannsókninni.

Húsleitin varðaði þjóðaröryggi

Yfirlýsingin var opinberuð í dag.
Yfirlýsingin var opinberuð í dag. AFP

Hún sýnir fram á hve miklir hagsmunir voru í húfi og hve fordæmalaus rannsókn sem þessi er, en lögreglufulltrúar sóru að húsleitarheimildin væri nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir að þjóðaröryggi í Bandaríkjunum biði alvarlegan skaða. 

Washington Post greinir frá málinu. Fallist var á að birta yfirlýsinguna opinberlega að undangengnum yfirlestri, þar sem viðkvæmar upplýsingar, er kynnu að ógna öryggi tiltekinna vitna, voru strikaðar út. 

Yfirlýsingin telur 38 blaðsíður í heildina. Þar hélt lögreglan því fram að rökstuddur grunur væri fyrir því að á heimili Trumps væri að finna sönnunargögn, hljóðupptökur og fleiri leynileg skjöl, bæði sem varða Bandaríkin og sem tilheyra FISC (Foreign Intelligence Surveillance Court). 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert