Þrír látnir úr óþekktu lungnabólguafbrigði

Lögreglumenn fyrir utan Luz Medica-sjúkrahúsið í Tucuman í gær þar …
Lögreglumenn fyrir utan Luz Medica-sjúkrahúsið í Tucuman í gær þar sem þeir sem veikst hafa af sjúkdómnum óþekkta fá nú meðhöndlun. AFP/Télam/Diego Araoz

Þrír hafa látist í Argentínu nú í vikunni úr óþekktu lungnabólguafbrigði sem þar hefur stungið sér niður, mjög staðbundið þó. Alls hafa níu manns tekið sótt þessa, þar af átta starfsmenn einkarekinnar læknastofu í norðvesturhluta Tucuman-héraðsins.

Tveir hinna látnu störfuðu þar en sá þriðji var sjúklingur á stofunni, að sögn Luis Medina Ruiz, heilbrigðisráðherra Tucuman. Heilbrigðisyfirvöld vinna nú að því að taka sýni úr þeim sem veikst hafa og segir ráðherrann að þegar sé búið að útiloka Covid-19, flensu, inflúensu af stofnum A og B, legíónella-bakteríu og hantaveiruna sem nagdýr bera með sér og dreifa.

Uppköst, hiti og steinsmuga

Frekari rannsóknir sýnanna standa nú yfir á Malbran-stofnuninni í höfuðborginni Buenos Aires. Þriðja manneskjan sem lést af völdum sjúkdómsins var sjötug kona sem var á leið í skurðaðgerð á læknastofunni í Tucuman. Segir Ruiz heilbrigðisráðherra að hún gæti mögulega hafa verið „sjúklingur núll en verið er að meta það“. Með sjúklingi núll er átt við fyrsta sjúkling sem ber með sér smitandi sjúkdóm við upphaf faraldurs.

Fyrstu sex sjúklingarnir greindust með einkenni á tímabilinu 18. – 23. ágúst sem að sögn Ruiz lýstu sér með „alvarleg öndunarteppa með lungnabólgu [...] mjög svipað covid“. Meðal annarra sjúkdómseinkenna má nefna uppköst, háan hita, niðurgang og verki.

Grannt er nú fylgst með ástandi annars starfsfólks læknastofunnar auk þess sem sérfræðingar greina vatn úr krónum stofunnar og loftræstikerfið. „Eins og er höfum við engin tilfelli utan við [læknastofuna],“ segir Mario Raya smitsjúkdómasérfræðingur við fjölmiðla.

Buenos Aires Times

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert