Hátískuveski reyndist gamlar buxur

Ekki er allt gull sem glóir. Louis Vuitton-veskið dýra skilaði …
Ekki er allt gull sem glóir. Louis Vuitton-veskið dýra skilaði sér sem gamlar buxur og peysuræfill í póstinum fyrir á annað hundrað þúsund krónur. Ljósmynd/Af Finn.no og úr einkasafni

Einstæðri móður á þrítugsaldri í Bergen í Noregi er gert að mæta fyrir héraðsdóm þar við aðalmeðferð fjársvikamáls sem hefst á næstunni en hún er grunuð um að hafa með aðstoð eldri manns haft verulegar fjárhæðir af 14 konum og einum manni víða um land, alls 165.000 norskar krónur, jafnvirði 2,25 milljóna íslenskra.

Fóru svikin fram með þeim hætti að konan auglýsti veski frá tískuframleiðandanum Louis Vuitton á markaðstorginu Finn.no þar sem allt frá notuðum húsgögnum upp í bifreiðar, báta og fasteignir gengur kaupum og sölum.

Verðmiði gripsins út úr verslun stendur í um 27.000 norskum krónum, tæplega 370.000 íslenskum, en konan bauð áhugasömum kaupendum lægra verð, allt niður í 10.000 krónur, 136.000 íslenskar, og þótti greinilega mörgum kostaboð því pantanirnar streymdu inn – og greiðslurnar um leið.

Vildi uppfylla draum dótturinnar

Væntanlegir kaupendur urðu hins vegar sem steinilostnir þegar þeir mættu á pósthúsið eftir að hafa fengið tilkynningu um pakka sem reyndist þá ekki innihalda annað en úr sér gengna fatagarma. Fékk einn kaupendanna gamlar slitnar buxur, snjáðar af ótal þvottum, og peysu í svipuðu ástandi í kaupbæti.

„Þúsund hel***is þakkir fyrir flott veski! Vona að þú skammist …
„Þúsund hel***is þakkir fyrir flott veski! Vona að þú skammist þín!“ skrifaði foxillur kaupandi er upp komust svik um síðir. Skjáskot/SMS-skeyti

Segja aðrir kaupendur svipaðar sögur af gömlum ónýtum lörfum sem þeir greiddu dýru verði en seljandinn í Bergen lokaði öllum samskiptaleiðum við kaupendur jafnharðan og greitt hafði verið fyrir „vöruna“. Greinir kona í Ósló norska ríkisútvarpinu NRK frá því að hún hafi kastað 13.000 norskum krónum á glæ, 177.000 íslenskum, við að uppfylla langþráðan draum ungrar dóttur sinnar um að eignast Louis Vuitton-veski. Mun móðirin bera vitni fyrir héraðsdómi við aðalmeðferð málsins.

„Ég skammast mín fyrir að hafa látið blekkjast. Gegnum allt ferlið og spjallið [við seljandann] hringdu margar viðvörunarbjöllur sem ég hefði betur lagt eyrun við,“ segir vitnið sem fékk fagurbláa gamla hettupeysu í póstinum fyrir tæplega 180.000 króna greiðslu.

Smjör og lóðaskífur

Nora E. Wennberg, lögfræðingur norsku neytendasamtakanna, segir í samtali við NRK að frásagnir fólks sem gabbað hafi verið á Finn.no flæði inn á borð hennar. Svindlið eigi sér einnig stað á Facebook og söluvefnum Tise.

Nora E. Wennberg lögfræðingur tekur netverjum allan vara á að …
Nora E. Wennberg lögfræðingur tekur netverjum allan vara á að vera of ginnkeyptir fyrir gylliboðum, sé eitthvað of gott til að vera satt er það yfirleitt svo. Ljósmynd/Forbrukerrådet

„Oftast er þetta þannig að kaupandi sem hefur greitt eitthvað dýru verði fær vöruna aldrei senda eða fær eitthvað allt annað, til dæmis smjörpakka eða lóðaskífur,“ greinir Wennberg frá og gefur ýmis ráð byggð á heilbrigðri skynsemi.

Má þar nefna að biðja um mynd af hlutnum sem rekur ekki augljóslega uppruna sinn til auglýsingastofu eða verslunar, taka með í reikninginn að sé verð of gott til að vera satt sé það einmitt líklega raunin, biðja um að sjá kvittun fyrir upphaflegum kaupum seljanda, athuga hvort seljandinn eigi sér feril á sölusíðum og hafi þar fengið lof eða last frá öðrum kaupendum og svo framvegis. Að lokum ráðleggur hún að öll svik séu tilkynnt lögreglu strax.

Ákærða vill ekki tjá sig um málið við NRK og það vill meðákærði ekki heldur, maðurinn sem aðstoðaði hana við svikráðin. Aðalmeðferð málsins hefst í byrjun október.

NRK

NRKII (svipað svindl með prjónapeysur í fyrra)

Sunnmørsposten (greindi fyrst frá, læst áskriftarsíða)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert