Útlit fyrir fyrsta kvenkyns forsætisráðherrann

Giorgia Meloni lýsti yfir sigri í nótt og þakkaði Ítalíu.
Giorgia Meloni lýsti yfir sigri í nótt og þakkaði Ítalíu. AFP

Giorgia Meloni, leiðtogi Bræðralags Ítalíu, hefur lýst yfir sigri í kosningunum á Ítalíu og er á góðri leið með að verða fyrsti kvenkyns forsætisráðherra landsins.

Þá er búist við því að Meloni muni mynda hægrisinnuðustu ríkisstjórn Ítalíu síðan í seinni heimsstyrjöldinni þegar Benito Mussolini var við völd, að því er kemur fram í frétt BBC.

„Ítalir hafa sent skýr skilaboð í þágu hægrisinnaðrar ríkisstjórnar undir forystu Bræðralags Ítalíu,“ sagði Meloni við blaðamenn í Róm. Þar hélt hún á skilti þar sem stóð: „Þakka þér Ítalía.“

Samkvæmt útgönguspám mun Meloni fá 26% atkvæða en búið er að telja um 90% atkvæða. Endanlegra niðurstaðna er að vænta síðar í dag.

Ættu að ná 43% atkvæða

Útlit er fyrir að Meloni nái að mynda hægristjórn með Lega-flokknum undir stjórn Matteos Salvinis og með flokki fyrrverandi forsætisráðherrans Silvios Berlusconis, Forza Italia. En flokkarnir þrír ættu að ná 43% atkvæða og þannig ná meirihluta í báðum deildum þingsins.

Fyrir fjórum árum fékk flokkur Meloni ekki nema 4% atkvæða og naut hann nú góðs af því að standa utan ríkisstjórnarinnar sem hrundi í júní. Kjörsókn var sérlega léleg í ár, ekki nema 63,91% en hún var 9% hærri árið 2018.

Meloni fagnar í nótt.
Meloni fagnar í nótt. AFP

Ákvörðun um hver verður næsti leiðtogi Ítalíu er síðan undir forsetanum, Sergio Mattarella, komin og tekur það líklega nokkrar vikur að mynda ríkisstjórn.

Lýðræðisflokkurinn, Partitio Democratico, náði ekki nema 19% atkvæða og sagði leiðtogi flokksins Debora Serrachiani að kvöldið væri sorglegt fyrir Ítalíu. Flokkarnir á vinstri vængnum náðu ekki nema samtals 26% atkvæða.

Fyrr á árinu útlistaði Meloni stefnumál sín: „Já við hinni náttúrulegu fjölskyldu, nei við LGBT-lobbíisma, já við kynvitund, nei við kynjahugmyndafræði ... nei við ofbeldi íslamista, já við öruggum landamærum, nei við fjöldaflóttamennsku ... nei við miklum alþjóðlegum fjármunum ... nei við embættismenn í Brussel!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert