Ástralir kynna áform um stofnun gegn spillingu

Scott Morrison, fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu, á blaðamannafundi.
Scott Morrison, fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu, á blaðamannafundi. AFP

Áströlsk stjórnvöld kynntu í dag áform um að koma á fót stofnun til að þefa uppi spillingu og koma upp um ólögmæta háttsemi embættismanna. Henni er ætlað að endurheimta traust almennings til stjórnvalda.

Stofnunin, sem á að vinna sjálfstætt og gagnsætt, á að rannsaka alvarlega og kerfisbundna spillingu í ríkisstjórninni að sögn Marks Dreyfus, dómsmálaráðherra Ástralíu.

Dreyfus sagði einnig að fylgst verði með löggjafarvaldinu, samningamönnum og starfsmönnum hins opinbera.

„Ríkisstjórnin ætlar að fylgja eftir loforði um að takast á við spillingu og endurheimta traust og ráðvendni í stjórnmálum,“ sagði Dreyfus við blaðamenn.

Talað um eitraða menningu í stjórnmálum

Gert er ráð fyrir að frumvarpið verði lagt fram í vikunni, en það er í samræmi við ýmsar nefndir sem hafa afhjúpað spillingu, bæði lögreglu og stjórnvalda, á undanförnum áratugum.

Háværar raddir hafa verið uppi um eitraða menningu í áströlskum stjórnmálum, sérlega eftir að ýmis spillingarmál voru afhjúpuð í síðustu ríkisstjórn.

Til að mynda var Scott Morrison, fyrrverandi forsætisráðherra, harðlega gagnrýndur fyrir að fara í orlof þegar miklir skógareldar geisuðu í Ástralíu 2019-2020, sem og meðhöndlun sína á kynferðisbrotamálum.

Dreyfus hefur sagt að stofnunin muni vinna sjálfstætt, þá ekki innan ríkisstjórnarinnar, og rannsaki ábendingar frá almenningi og ráðherrum.

Traust ástralsks almennings til stjórnmálamanna hefur ekki mælst minna í marga áratugi. Skoðanakönnun frá því í fyrra sýndi að fólk hefur örlítið meira álit á stjórnmálamönnum en auglýsingafólki, fasteignasölum og bílasölum.

mbl.is