38 látnir eftir árás fyrrverandi lögreglumanns

Leikskólinn var skammt frá heimili árásarmannsins. Sonur hans var nemandi …
Leikskólinn var skammt frá heimili árásarmannsins. Sonur hans var nemandi við skólann. AFP

Að minnsta kosti 38 liggja í valnum eftir að vopnaður maður gerði árás á leikskóla í Taílandi í Nong Bua Lampu í dag. Lögreglan segir að árásarmaðurinn hafi mætt á staðinn um kl. 13 að staðartíma þegar börnin voru að leggja sig. Leikskólakennari segir að maðurinn, sem er fyrrverandi lögreglumaður, hafi átt barn í skólanum en það var ekki á staðnum. 

Hann var vopnaður hníf, skammbyssu og haglabyssu og hóf þegar í stað skothríð. Hann hafði m.a. kennara og foreldra sem reyndu að koma í veg fyrir að hann kæmist inn í bygginguna. Að sögn lögreglu var árásarmaðurinn undir áhrifum amfetamíns þegar hann lét til skarar skríða, en leikskólinn er skammt frá heimili hans. 

Að sögn sjónarvotta var aðkoman skelfileg. Lík barna og fullorðinna lágu á víð og dreif, bæði innan- og utandyra. Alls létust 22 börn. 

Árásarmaðurinn Panya Khamrab. Hann er fyrrverandi lögreglumaðu sem var rekinn …
Árásarmaðurinn Panya Khamrab. Hann er fyrrverandi lögreglumaðu sem var rekinn úr starfi í sumar vegna fíkniefnalagabrota. AFP

Árásarmaðurinn lagði á flótta í bifreið eftir árásina með þeim afleiðingum að nokkrir urðu fyrir bílnum. Þá skaut hann einnig á fólkið áður en hann fór heim til sín þar sem hann myrti bæði eiginkonu sína og son áður en hann féll fyrir eigin hendi. 

Fjöldamorð þar sem margir eru skotnir til bana eru sjaldgæf í Taílandi. Íbúar eru um 70 milljónir talsins og er byssueign mjög algeng, en um 10 milljónir skotvopna eru skráð í einkaeigu að því er segir á vefnum gunpolicy.org. Þá eru um 4,1 milljón skotvopna ekki á skrá. 

Í Myanmar búa um 54 milljónir íbúa og þar eru skráð skotvopn í eigu almennings aðeins um 870.000 talsins í samanburði og í Suður-Kóreu, þar sem íbúafjöldinn er um 50 milljónir, þá eru aðeins um 79.000 skráð skotvopn. 

Landsmenn eru í áfalli yfir þessum voðaverkum.
Landsmenn eru í áfalli yfir þessum voðaverkum. AFP

Fram kemur í erlendum fjölmiðlum að lögreglumaðurinn fyrrverandi hafi verið rekinn úr starfi í júní fyrir fíkniefnalagabrot. Skotvopnið sem hann var með var 9 mm skammbyssa sem hann var löglega skráð í hans eigu. 

Prayuth Chan-ocha, forsætisráðherra Taílands, hefur vottað fjölskyldum og öðrum sem eiga um sárt að binda sína dýpstu samúð. Þá hefur hann fyrirskipað að rannsókn muni hefjast og að hún muni vera í algjörum forgangi. Hann hyggst einnig heimsækja svæðið. 

Taílenskur almenningur er í áfalli eftir atburð dagsins og fólk á erfitt með að trúa að þetta hafi gerst. 

mbl.is