Meta segir upp ríflega 11.000 manns

Mark Zuckerberg, forstjóri Meta, ætlar að segja up 11.000 manns.
Mark Zuckerberg, forstjóri Meta, ætlar að segja up 11.000 manns. AFP/Mandel Ngan

Fleiri en 11 þúsund manns verður sagt upp hjá Meta, sem rekur meðal annars Facebook og Instagram. 

Þetta segir Mark Zuckerberg, forstjóri Meta. Hann segir þetta vera „erfiðustu breytingar sem gerðar hafa verið í sögu Meta.“

„Ég vil axla ábyrgð á þessum ákvörðunum og því hvernig við komumst á þennan stað. Ég veit þetta er erfitt fyrir alla og ég mér þykir þetta sérstaklega leitt gagnvart þeim sem verða fyrir uppsögnunum,“ sagði Zuckerberg í skilaboðum til starfsfólks síns.

Hann segir að uppsagnirnar nái til 13% af öllu starfsfólki Meta og muni koma til með að hafa áhrif á rannsóknarstofu fyrirtækisins sem einblínir á sýndarveruleikaheiminn Metaverse, ásamt smáforritum á borð við Facebook, Instagram og Whatsapp.

Hélt að Covid-19 netvirknin myndi halda áfram

Zuckerberg sagði starfsfólki sínu að hann hafi búist við að aukningin í rafrænum viðskiptum og virkni á netinu sem varð í Covid-19 faraldrinum myndi halda áfram. 

„Ég hafði rangt fyrir mér og ég axla ábyrgð á því.“

Hagnaður Meta var 4,4 milljarðar bandaríkjadala (jafnvirði um 644 milljarða íslenskra króna) á síðasta ársfjórðungi. Það er samdráttur um 52% á milli ára. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert