Gróðureldar í Noregi og fjöldi húsa rýmdur

Gróðureldar. Mynd úr safni.
Gróðureldar. Mynd úr safni. AFP

Gróðureldar í Åfjord í Þrændalögum í Noregi hafa sótt í sig veðrið og hefur sveitarfélagið fyrirskipað íbúum að rýma að minnsta kosti þrjátíu hús nú í kvöld.

Í umfjöllun VG má sjá myndir af vettvangi. Þar segir að slökkviliðið telji sig hafa náð tökum á eldunum, að því gefnu að vindur snúist ekki og sömuleiðis að hann hvessi ekki.

Haft er eftir bæjarráðsmanni að reynt sé að hemja þá elda sem næstir eru byggingum. Engin leið sé að stýra þeim eldum sem geisa uppi í fjalli.

Tilkynnt um eldinn í kvöld

Tíu hús hafa þá einnig verið rýmd í Álasundi sökum gróðurelda.

Var lögreglu tilkynnt um eldinn í Skarbøvika skömmu fyrir klukkan ellefu í kvöld að staðartíma.

Til greina kemur að rýma fleiri hús ef þörf verður talin á, hefur norska ríkisútvarpið eftir viðbragðsaðilum.

mbl.is