Brauð á heimsminjaskrá

„250 grömm af töfrum og fullkomnun“ hafa nú náð inn á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Þetta er franska langbrauðið baguette og lýsingin að framan fengin frá Emmanuel Macron Frakklandsforseta.

Fátt hefur þótt sterkara einkenni franskrar matarhefðar um dagana en langbrauðið enda baka frönsk bakarí sex milljarða slíkra brauða ár hvert, sé að marka tölfræði landssambands þeirra.

UNESCO hefur nú veitt brauðinu og hefðinni sem umlykur framleiðslu þess „óskoraðan menningarverðmætasess“ og kannski ekki vanþörf á þar sem hefðbundnum frönskum bakaríum hefur fækkað um 400 ár hvert síðan 1970. Þá voru þau 55.000 í landinu, eitt á hverja 790 íbúa, en eru nú 35.000, eða eitt á hverja 2.000.

Vélvædd iðnaðarbakarí hafa sprottið upp í staðinn, vinsældir súrdeigsbrauðs aukist sem aldrei fyrr auk þess sem íbúar borga taka nú hamborgara fram yfir langbrauð með skinku sem aldrei fyrr.

Lúxusvara í öndverðu

Þrátt fyrir að virðast hafa fylgt Frakklandi og franskri menningu nánast frá upphafi er nafnið baguette ekki nema um 100 ára gamalt og varð til árið 1920 þegar sett voru lög um brauðið sem kváðu á um að lágmarksþyngd þess skyldi vera 80 grömm og hámarkslengd 40 sentimetrar.

Franska langbrauðið hefur verið gert ódauðlegt með skráningu á heimsminjaskrá …
Franska langbrauðið hefur verið gert ódauðlegt með skráningu á heimsminjaskrá UNESCO. AFP/Alain Jocard

„Í öndverðu var langbrauðið lúxusvara, verkalýðsstéttin borðaði sveitabrauð sem hafði mun meira geymsluþol,“ útskýrir Loic Bienassis hjá Matarsögu og -menningarstofnun Evrópu sem kom að skjalagerð heimsminjaskráningar langbrauðsins með UNESCO. Neysla langbrauðsins varð svo útbreiddari og á sjöunda og áttunda áratugnum var það á borðum landsbyggðarinnar jafnt sem borganna.

Saga langbrauðsins er þó á reiki og um leið skýringar á lögun þess. Ein sagan hermir að Napóleón keisari hafi fyrirskipað bakstur langra brauða svo hermenn ættu auðveldara með að bera þau með sér en önnur er á þá leið að langbrauðið hafi komið fram við lagningu neðanjarðarlestakerfis Parísar á ofanverðri 19. öld. Þá hafi þótt hentugt fyrir verkamenn að hafa með sér brauð sem ekki þyrfti hníf til að skera heldur mætti rífa af með höndunum.

Þrír borgarráðsmenn í París, Viguier, Franchet og Feron, útbýta langbrauðum …
Þrír borgarráðsmenn í París, Viguier, Franchet og Feron, útbýta langbrauðum í bakaríi á Boulevard Diderot í París 18. október 1848. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert