Írönsk stjórnvöld endurskoða höfuðslæðulöggjöfina

Blóðug og linnulaus mótmæli hafa staðið yfir í rúma 2 …
Blóðug og linnulaus mótmæli hafa staðið yfir í rúma 2 mánuði. AFP

Írönsk stjórnvöld segjast ætla að endurskoða áratuga gömul lög sem kveða á um skyldu kvenna til að klæðast höfuðslæðum. 

Bæði þing og dómsvald í Íran fara nú yfir hvort breyta þurfi lögunum, að sögn Mohammad Jafar Montazeri, ríkissaksóknara. Ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um það í hverju slík breyting fælist. Niðurstöður eru sagðar eiga að liggja fyrir eftir eina eða tvær vikur. 

Ebrahim Raisi, forseti Íran, hefur lýst því yfir að trúarlegar og lýðræðislegar stoðir ríkisins væru rótgrónar í stjórnarskrá þess. Þó væri unnt að framfylgja stjórnarskránni með sveigjanlegri reglum. 

Mótmælin að skila árangri?

Yfirlýsing þessi kemur í kjölfar harðra mótmæla sem geisað hafa í landinu í rúmlega tvo mánuði. Hafa þau meðal annars lotið að þessum ströngu lögum, sem þykja til marks um kúgun kvenna í landinu. 

Mótmælin hófust eftir að 22 ára gömul kona að nafni Mahsa Amini, lést í haldi lögreglunnar. Talið er að hún hafi látist af völdum ofbeldis lögreglu, en hún var handtekin fyrir meint brot á lögum um höfuðslæður kvenna þar sem hárlokkur hennar stóð út undan slæðunni. 

Fleiri en 200 hafa látið lífið í mótmælunum og þúsundir hafa verið fangelsaðir. Þrátt fyrir það hefur ekki tekist að brjóta mótmælendur á bak aftur og kveða niður óeirðirnar. 

Lögin hafa verið í gildi í áratugi, eða frá því …
Lögin hafa verið í gildi í áratugi, eða frá því að íslamskir klerkar komust til valda. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert