Trump vill víkja stjórnarskránni til hliðar

Donald Trump tilkynnti framboð sitt í Flórída þann 15. nóvember.
Donald Trump tilkynnti framboð sitt í Flórída þann 15. nóvember. AFP

Ákall Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, um að víkja stjórnarskrárbundnum reglum til hliðar hefir vakið mikið umtal vestanhafs. Stjórnmálamenn og skýrendur fordæma ummæli forsetaframbjóðandans og hefur þeim verið lýst sem ógn við lýðræðið.

Trump lét ummælin falla á sínum eigin samfélagsmiðli Truth Social en tillagan var sett fram í tengslum við niðurstöður forsetakosninga Bandaríkjanna árið 2020 þegar Joe Biden bar sigur úr býtum gegn Trump.

„Þegar um er að ræða svik af þessu umfangi, þessari gerð og stærðargráðu er vert að afnema allar reglur, reglugerðir og lagagreinar. Jafnvel þær sem er að finna í stjórnarskránni,“ segir í færslu Trumps á miðlinum.

Hvíta húsið svarar

Í færslu Hvíta hússins um ummæli fyrrverandi forsetans segir að allar árásir á stjórnarskrá Bandaríkjanna séu árásir á sál þjóðarinnar sem eigi að vera fordæmdar.

„Ást þín á þjóðinni á ekki að vera bundin því skilyrði að þú vinnir.“

Demókratar fordæmdu Trump í hvívetna á Twitter og kölluðu hann meðal annars andbandarískan fasista og óvin stjórnarskrárinnar. Þá var kallað eftir því að Repúblikanar fordæmdu hann. Sem þeir og gerðu.

Adam Kinzinger sem situr í fulltrúadeild fyrirhönd Repúblikana í Illinois sagði engan íhaldsmann geta réttlætt stuðning við Trump.

Þá sagði John Bolton, sem var þjóðaröryggisráðgjafi Trump í stjórnartíð hans, að allir „raunverulegir íhaldsmenn“ þyrftu að standa gegn framboði Trumps.

John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna.
John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna. AFP
mbl.is