Stjórnarandstaðan sigraði í Færeyjum

Meirihlutinn féll í Færeyjum.
Meirihlutinn féll í Færeyjum. mbl.is/Sigurður Bogi

Jafnaðarflokkurinn bar sigur úr býtum í færeysku þingkosningunum í gær með 26,6% atkvæða og níu þingsæti. 

Meirihlutinn, sem samanstóð af Sambandsflokknum, Fólkaflokknum og Miðflokknum, fékk samtals 15 þingsæti af 33 og er þar með fallinn.

Ljóst er að mynda þarf nýjan meirihluta en talið er að Jafnaðarflokkurinn sé með sterkasta umboðið til að leiða slíkar viðræður eftir úrslit gærdagsins.

Vildi lítið segja um framhaldið

Aksel V. Johannesen, leiðtogi Jafnarflokksins, vildi þó ekki gefa mikið upp varðandi framhaldið í samtali við danska ríkisútvarpið í gær. Hann kvaðst þó ánægður með niðurstöðurnar en flokkurinn bætir við sig tveimur fulltrúum.

Stjórnarandstöðuflokkurinn Framsókn bætir við sig einu þingsæti og er nú með þrjú en Sjálfstýriflokkurinn missti eina þingsætið sitt. Engar breytingar urðu hjá Þjóðveldisflokknum sem heldur sínum sex þingsætum.

Vill að gamla stjórnarandstaðan myndi nýja stjórn

Høgni Hoydal, formaður Þjóðveldisflokksins, taldi liggja í augum uppi að flokkarnir sem áður voru í minnihluta gætu myndað nýja stjórn saman.

„Þetta er afar einfalt. Ég hef sagt það frá því að við hófum kosningabaráttuna okkar að við teljum að stjórnarandstaðan, það er sósíal demókratar, Framsókn og við, geti myndað nýja stjórn,“ segir Høgni.

mbl.is