100 þúsund krónur í skatta 2016 og 2018

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti. AFP/Chandan Khanna

Skattframtöl Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, sex ár aftur í tímann hafa verið birt. Þau sýna að Trump greiddi mjög litla skatta til ríkisins á fyrsta og síðasta ári sínu sem forseti.

Framtölin voru af­hent rann­sókn­ar­nefnd á veg­um full­trúa­deild­ar Banda­ríkjaþings í byrjun mánaðarins vegna gruns um skattsvik Trump. 

CNN greinir frá því að gögnin séu þúsundir blaðsíðna en Trump reyndi eins og hann gat að halda þeim innsigluðum. Tíðkast hefur að forsetar Bandaríkjanna birti framtölin sjálfviljugir. 

750 dalir í skatta

Skattframtölin staðfesta niðurstöðu skýrslu sem gefin var út af skattanefnd um að Trump hafi borið fyrir sig miklu tapi fyrir forsetatíð sína og á meðan henni stóð til þess að draga úr eða nánast útrýma skattbyrði sinni. Til dæmis sýna framtölin fram á 105 milljóna dala tap árið 2015 og 73 milljóna dala tap árið 2016.

Trump greiddi enga skatta árið 2020 og einungis 750 dali árin 2016 og 2018, eða um 100 þúsund krónur.  

Árið 2018 greiddi hann þó nærri eina milljón dala, eða um 140 milljónir króna. 

Býður sig aftur fram

Eftir að framtölin voru birt í dag sagði Trump í yfirlýsingu að Demókrataflokkurinn hefði ekki átt að birta þau og að Hæstiréttur Bandaríkjanna hefði gert mistök að heimila það.

„„Trump“-skattframtölin sýna enn og aftur hversu góðum árangri ég hef náð og hvernig ég hef getað notað afskriftir og ýmsa aðra skattaafslætti sem hvata til að skapa þúsundir starfa og stórkostleg mannvirki og fyrirtæki.“

Trump lýsti því yfir um miðjan nóvember að hann myndi bjóða sig aftur fram til forseta. Stjórnmálaskýrendur telja að birting skattframtalanna eigi eftir að hafa lítil áhrif á framboð Trump. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert