Donald Trump býður sig aftur fram

Frá heimili Trumps í Flórída í nótt.
Frá heimili Trumps í Flórída í nótt. AFP/Alon Skuy

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hefur lýst yfir þriðja framboði sínu til forseta Bandaríkjanna. 

„Endurkoma Bandaríkjanna hefst núna,“ sagði Trump í yfirlýsingu sinni á heimili sínu í Flórídaríki og bætti við: „Við verðum að bjarga landinu okkar.“

Rúm vika er síðan gengið var til þingkosninga í Bandaríkjunum sem flokkur forsetans fyrrverandi, Repúblíkanaflokkurinn, reið ekki jafn feitum hesti frá og búist var við. Margir, í flokknum og utan hans, kenna framgöngu Trumps í aðdraganda kosninganna um gengi flokksins. 

Joe Biden Bandaríkjaforseti, sem lagði Trump í forsetakosningum fyrir tveimur árum, hefur enn ekki lýst yfir framboði að nýju árið 2024, en gefið því undir fótinn.

Þegar Trump ávarpaði gesti sína í sal Mar-a-Lago, stórhýsis síns á Palm Beach, í nótt sagði hinn 76 ára forsetaframbjóðandi: „Við erum þjóð í hnignun.“

„Fyrir milljónir Bandaríkjamanna hafa síðustu tvö ár, undir stjórn Joes Bidens, verið tími þjáningar, hörku, kvíða og örvæntingar.“

Sjá má myndskeið af samantekt af ræðu Trumps, frá BBC, hér að neðan:

mbl.is

Bloggað um fréttina