„Þetta er efni í bíómynd“

Scott Stallings beið eftir boði á Masters sem ekki skilaði …
Scott Stallings beið eftir boði á Masters sem ekki skilaði sér. AFP/Douglas Defelece.

Scott Stallings, fasteignasali í Georgíuríki í Bandaríkjunum, reyndi árum saman að verða sér úti um miða á hið víðfræga golfmót Masters sem haldið er í Augusta í Georgíuríki. 

Það hefur Stallings ekki tekist enda er afar erfitt að fá miða á Masters. Miðarnir haldast í fjölskyldum mann fram af manni en auk þess býður klúbbnum samstarfsaðilum og fleirum sem eru þá um 20% af áhorfendum. 

Völlurinn Augusta National þykir sérlega glæsilegur og er einkaklúbbur. Það næsta sem Stallings hafði komist vellinum var þegar hann fór í Costco ekki ýkja langt frá. 

Hann varð því skiljanlega undrandi á gamlársdag þegar hann fékk boðskort á Masters sent í pósti. Ekki nóg með það. Honum var boðið að keppa á mótinu.  

Stallings botnaði skiljanlega lítið í því þar sem hann hefur enga burði til þess að keppa við snjöllustu kylfinga heims í beinni útsendingu í einum stærsta íþróttaviðburði í Bandaríkjunum. 

Á Augusta National ríkir regurðin ein.
Á Augusta National ríkir regurðin ein. AFP/Jim Watson

Á sama tíma var atvinnukylfingurinn Scott Stallings staddur í keppni á Hawaí. Stallings hefur þrívegis sigrað á mótum á PGA-mótaröðinni og vissi ekki betur en hann hefði unnið sér inn keppnisrétt á Masters. Hann var farinn að velta fyrir sér hvort ekki stæði til að senda sér boð á mótið. 

„Ég er með boð á mótið með mínu nafni og ég á persónuskilríki til að sanna að ég sé Scott Stallings. Er hægt að hindra mig í því að fara á teig í mótinu?“ velti fasteignasalinn Stallings fyrir sér í spjalli við CNN en fréttastofunni þótti með nokkrum ólíkindum að nafnaruglingur sem þessi geti átt sér stað í kringum stórviðburð eins og Masters. 

Hér má taka fram að sem golf unnandi þá vissi fasteignasalinn mæta vel að hann ætti alnafna sem væri að gera það gott á PGA. Hann og eiginkonan Jennifer höfðu í kjölfarið samband við kylfinginn Scott Stallings í gegnum Instagram til að segja honum frá ruglingnum. 

Kylfingurinn Stallings hefur fengið staðfestingu á því að hann sé á keppendalistanum á Masters í apríl eins og gera mátti ráð fyrir. Hann hefur ákveðið að bjóða þeim hjónum á Augusta National til að horfa á Masters. Auk þess geta þau séð báða æfingahringina fyrir mótið og kylfingurinn og eiginkona hans ætla að bjóða fasteignasalanum og Jennifer út að borða meðan á mótinu stendur. 

Og hvað skyldi eiginlega eiginkona kylfingsins Scott Stallings heita? Jú hún heitir að sjálfsögðu Jennifer. 

„Þetta er efni í bíómynd. Nú bíð ég bara eftir því að Spieldberg hringi svo við getum fundið út úr því,“ sagði fasteignasalinn einnig í samtali við CNN.mbl.is