Skutu vagnstjóra með loftbyssu

Bylgja ofbeldis gengur nú yfir notendur og starfsfólk almenningssamgangna í …
Bylgja ofbeldis gengur nú yfir notendur og starfsfólk almenningssamgangna í Toronto í Kanada. Ljósmynd/Wikipedia.org/Aaron Davis

Notendur almenningssamgangna í kanadísku borginni Toronto hafa orðið vitni að ofbeldi síðustu daga sem hvort tveggja hefur beinst gegn farþegum og ökumönnum spor- og strætisvagna þar.

Eru tilfellin nú orðin sjö á jafnmörgum dögum og má þar nefna konu sem annar farþegi, henni bláókunnugur, stakk margoft í sporvagni og 16 ára dreng sem stunginn var í strætisvagni daginn eftir fyrra tilvikið. Þá skutu tveir unglingar vagnstjóra í strætisvagni með loftbyssu og maður elti tvo starfsmenn samgöngukerfisins með sprautunál á lofti.

Þessi bylgja að því er virðist handahófskennds ofbeldis hefur vakið umtal og ótta í borginni. „Ég þarf bókstaflega að fela mig þegar ég nota neðanjarðarlestina,“ skrifar kona í Toronto á samfélagsmiðilinn TikTok. „Þetta er óhugnanlegt, ég óttast um öryggi mitt jafnt sem annarra,“ segir viðmælandi staðarfréttaveitunnar BlogTo.

Fjölgaði jafnvel í faraldrinum

Hefur lögreglan í Toronto brugðist við óöldinni og tilkynnt að hún muni auka viðveruna á biðstöðvum borgarinnar en lögreglustjórinn Myron Demkiw lýsti því yfir við sama tækifæri að Toronto teldist örugg borg hvað sem ofbeldisöldunni í samgöngutækjunum liði. „Ein milljón manns notar neðanjarðarlestir, sporvagna og strætisvagna borgarinnar dag hvern hnökralaust,“ sagði lögreglustjóri í tilkynningu sinni.

Dagblaðið Toronto Star tók saman tölfræði ofbeldistilvika í almenningssamgöngum borgarinnar og sýndi þar svart á hvítu að þeim hefur fjölgað, jafnvel þótt heimsfaraldur hefði gjörbreytt ferðamynstri íbúanna um tíma. Þannig töldu árásir og áreiti sem tilkynnt var um í almenningssamgöngutækjum árið 2021 heil 734 tilfelli sem var fjölgun um tíu prósent frá árinu 2019.

Fyrri helming síðasta árs voru tilkynnt tilfelli 451 sem er töluvert meira en helmingur allra tilfella ársins á undan og samkvæmt tölum lögreglu hefur alvarlegum afbrotum í Toronto fjölgað um þrjú prósent síðan 2019.

Þá kvaðst meira en helmingur stjórnenda almenningssamgöngutækja hafa orðið fyrir ofbeldi eða áreiti í nýlegri könnun og upp á síðkastið hafa fregnir af svipuðum uppákomum borist frá Edmonton og Vancouver.

CBC

Global News

City News

mbl.is