Að minnsta kosti 25 fórust í sprengingu

Svæðið þar sem sprengingin varð hefur verið girt af.
Svæðið þar sem sprengingin varð hefur verið girt af. AFP/Maaz Ali

Að minnsta kosti 25 fórust og 120 særðust í sprengingu í bænahúsi í borginni Peshawar í norðvesturhluta Pakistans í morgun.

Bænahúsið er í höfuðstöðvum lögreglunnar í borginni. Árásin var gerð á meðan á bænastund stóð en Peshawar er skammt frá landamærunum að Afganistan þar sem átök hafa aukist að undanförnu.

Hluti af þaki bænahússins og veggur hrundu í árásinni.

AFP

„Það ríkir neyðarástand,“ sagði Muhammad Asim Khan, talsmaður stærsta sjúkrahúss borgarinnar.

Margir tilbiðjendur voru fastir inni í byggingunni, að sögn lögreglunnar. Stórar vinnuvélar og slökkviliðsmenn leituðu í rústunum að eftirlifendum.

Lögreglan sagði að sprengingin hafi orðið í annarri röð tilbiðjenda og rannsókn stendur yfir á því hvort að um sjálfsvígsárás hafi verið að ræða.

AFP
mbl.is