Þrír látnir eftir jarðskjálfta kvöldsins

Bíll keyrir um götur Antakya í suðurhluta Tyrklands í dag.
Bíll keyrir um götur Antakya í suðurhluta Tyrklands í dag. AFP/Yasin Akgul

Að minnsta kosti þrír hafa látið lífið eftir að 6,4 stiga jarðskjálfti reið yfir sunnanvert Tyrkland og norðanvert Sýrland í kvöld.

Suleyman Soylu, innanríkisráðherra Tyrklands, segir að þrír hafi látið lífið í Tyrklandi og 213 manns hafi verið fluttir á spítala. Í Sýrlandi hafa að minnsta kosti 130 slasast. Byggingar sem voru illa leiknar eftir jarðskjálftann 6. febrúar hafa hrunið í báðum löndum.

Viðvörun um mögulega flóðbylgju hefur verið aflétt en fólk var hvatt til að halda sig fjarri ströndum Tyrklands.

Fólk fast undir rústunum

Borgarstjórinn í Hatay í Suður-Tyrklandi segir að fólk sé þar fast undir rústum bygginga. Eftir skjálftann 6. febrúar mynduðust víða sprungur í götum borgarinnar sem hafa nú stækkað og gerir neyðaraðilum erfitt fyrir að ferðast um borgina.

Þremur mínútum eftir 6,4 stiga skjálftann sem varð klukkan 20.04 að staðartíma í kvöld varð eftirskjálfti 5,8 að stærð.

Um 20 mínútum eftir fyrsta skjálftann urðu tveir skjálftar af stærðinni 5,2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert