Halli og Musk tókust á í nótt

Haraldur Þorleifsson og Elon Musk.
Haraldur Þorleifsson og Elon Musk. Samsett mynd

Elon Musk, forstjóri Twitter, brást í nótt við tístum Haralds Þorleifssonar, frumkvöðuls og fyrrverandi starfsmanns fyrirtækisins, sem vildi fá að vita hvort að honum hefði verið sagt upp.

Ekki má segja að Haraldur hafi fengið svör frá Musk við þeirri spurningu sem hann varpaði fram og var viðmót forstjórans nokkuð kaldranalegt.

Það virtist þó ekki koma að sök því Haraldur greindi síðar frá því að starfsmannastjóri Twitter hefði staðfest grun hans um að honum hefði verið sagt upp. Eftir stendur þó stóra spurningin um hvort að Íslendingurinn muni fá greitt eftir uppsögnina, samkvæmt samningi.

Spurði um verkefni Haralds

Fyr­ir níu dög­um var lokað á aðgang Har­alds í vinnu­tölvu hans hjá Twitter þar sem hann starfaði sem hönnuður. Í tísti í gær kvaðst Haraldur ekki hafa fengið upplýsingar um hvort að hann væri enn þá starfsmaður hjá fyrirtækinu. 

Eins og áður sagði virðist Musk ekki hafa svarað spurningu Haralds um hvort hann væri enn starfsmaður hjá Twitter. Þess í stað vildi hann fá að vita hvaða verkefnum hann hefði verið að sinna.

Haraldur kvaðst eiga erfitt með að svara spurningunni á Twitter þar sem hann væri bundinn trúnaði. Hann gæti það aftur á móti með samþykki lögfræðinga.

Musk svaraði skömmu síðar og sagði að honum væri heimilt að leysa frá skjóðunni.

Í svari Haralds útlistar hann nokkur verkefni eins og sjá má hér að neðan:

Í stað þess að svara upprunalegu spurningunni heldur Musk áfram að spyrja nánar út í verkefnin. 

Svar Haralds virðist þó ekki hafa vakið upp mikla aðdáun forstjórans sem bregst við með því að senda hláturstjákn.

Þá heldur Musk áfram og spyr Harald hvort hann sé mannblendinn og lætur hlekk fylgja með stiklu úr myndinni Office Space, líklegast í þeim tilgangi að gera grín að Haraldi. 

Haraldur svarar glaðbeittur: „Já, ég er mannblendinn.“

Haraldur ítrekar þá að Twitter hafi fullan rétt á því að segja honum upp. Það væri aftur á móti venja að láta fólk vita, til að mynda með uppsagnarbréfi. Sem hefði ekki verið raunin í hans tilfelli. Þá kvaðst Haraldur ekki geta látið Musk hafa myndir eða skjöl af því sem hann hafði verið að vinna í í ljósi þess að fyrirtækið hefði lokað fyrir aðgang hans. 

„Ef að þú vilt láta opna fyrir hann að þá get ég sótt þetta,“ bætir hann við.

Þá kvaðst hann hafa fengið svar við spurningu sinni annars staðar og að hann hafi engar kvartanir. Hann vildi hins vegar fá það staðfest að hann myndi fá greitt það sem hann ætti rétt á. Musk svaraði ekki.

mbl.is