Sjö látnir eftir skotbardaga í Mexíkó

Mexíkóskur lögreglumaður að störfum fyrr á árinu.
Mexíkóskur lögreglumaður að störfum fyrr á árinu. AFP/Juan Carlos Cruz

Að minnsta kosti fimm grunaðir glæpamenn og tveir hermenn létust í skotbardaga eftir að byssumenn sátu fyrir hópi hermanna í suðvesturhluta Mexíkó.

Átökin urðu seinnipartinn á föstudag í bænum El Pescado í ríkinu Guerrero þar sem glæpagengi hafa áður tekist á.

Mexíkóski herinn segir að ráðist hafi verið á hermennina „af um 18 vopnuðum almennum borgurum í tveimur farartækjum“. Eftir það braust skotbardaginn út.

Talið er að árásarmennirnir séu hluti af La Familia Michoachana, sem var áður einn valdamesti eiturlyfjahringur Mexíkó en missti töluverð völd eftir að leiðtogar hans voru handteknir.

mbl.is