Saksóknarar í Bandaríkjunum hafa komist yfir upptöku af Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, þar sem hann viðurkennir að hafa geymt háleynileg skjöl varnarmálaráðuneytisins á heimili sínu í Flórída.
CNN greinir frá því að upptakan sé frá sumrinu 2021, en Trump hefur áður sagt að skjölin hafi ekki verið leynileg. Skjölin innihéldu upplýsingar um mögulega árás á Íran.
Í upptökunni gefur Trump til kynna að hann hafi verið upplýstur um að hann væri með í fórum sínum leynileg skjöl eftir að hann yfirgaf Hvíta húsið, sex mánuðum fyrr.
Ummæli Trump í upptökunni gefa til kynna að hann hafi viljað deila upplýsingunum, en að hann hafi verið meðvitaður um takmarkað vald sitt til þess að gera skjölin opinber eftir að hann hætti sem forseti.
Í frétt CNN kemur fram að fjölmiðilinn hafi ekki hlustað á upptökuna, en að nokkrir heimildarmenn hafi lýst henni fyrir blaðamönnum.
Heimildarmennirnir segja að umræðurnar um skjölin hafi einungis staðið yfir í um tvær mínútur og að upptakan í heild hafi verið af lengri fundi Trump á golfklúbbi hans í New Jersey.