Freia sett út í kuldann

Varla er til sá Óslóarbúi sem ekki kannast við Freiu-klukkuna …
Varla er til sá Óslóarbúi sem ekki kannast við Freiu-klukkuna við Egertorget í norsku höfuðborginn. Nú hyggjast margir sniðganga Freiu gömlu vegna tengsla við Rússland. Ljósmynd/Wikipedia.org/Stefan Schäfer

Hin fornfræga norska sælgætisgerð Freia á ekki sjö dagana sæla eftir að fjöldi skandinavískra fyrirtækja lýsti því yfir að þaðan yrði ekki keypt svo mikið sem eitt súkkulaðistykki á næstunni, þar á meðal flugfélögin Norwegian og SAS, sem eru þar stórir viðskiptavinir, og Ferðamálasamtök Noregs, Den Norske Turistforening.

Ástæða þessa er matvörufyrirtækið Mondelez, eigandi Freiu, sem einnig heldur úti nokkuð umfangsmikilli starfsemi í Rússlandi, hefur þar 3.000 starfsmenn eða þar um bil.

Talsmenn norsku fyrirtækjanna kveða stjórnendur þar ekki geta sætt sig við að eigandi þessarar gamalgrónu sælgætisgerðar, sem verið hefur við iðju sína allt síðan 1889, haldi enn úti starfsemi í Rússlandi, vel rúmu ári eftir innrás Rússa í Úkraínu, en Mondelez eignaðist Freiu árið 1993.

Óska þess síst að styðja Rússa

Ofan á allt saman hefur dagvörurisinn Coop nú beiðst fundar með norska viðskiptaráðherranum Jan Christian Vestre og tilkynnt um þá ósk í fréttatilkynningu.

Þar vilja stjórnendur einfaldlega vita hvað þeim sé hagfelldast að gera. „Við óskum eftir ráðum og útskýringum á því hvernig norsk stjórnvöld óska að við og norskir neytendur hegðum okkur gagnvart fyrirtæki sem er á svörtum lista spillingareftirlitsstofnana í Úkraínu,“ segir þar.

Bætir Coop því við að verslunarkeðjan óski þess síst að styðja Rússa í innrás þeirra, hvorki beint né óbeint, en ekkert hefur á meðan heyrst frá öðrum gríðarstórum viðskiptavinum Freiu, verslunarrisunum Rema og Norgesgruppen.

Súkkulaðið vendipunktur

Knattspyrnusamband Noregs er meðal þeirra sem nú sniðganga vörur Freiu en fleiri eru væntanlegir á vagninn og íhuga nú stöðuna, svo sem Vy, sem er fyrrverandi ríkisjárnbrautarstofnunin NSB, og Travel Retail Norway, rekstraraðili fríhafnarverslana á mörgum stærstu flugvöllum landsins, svo sem Gardermoen, Flesland og Værnes.

Brotthvarf Ferðamálasamtakanna þykir þó sérstaklega mikil blóðtaka fyrir Freiu, líklega stærstu kaupendur Kvikk Lunsj-súkkulaðisins allar götur síðan 1960, en Kvikk Lunsj hefur síðustu ár verið markaðssett sem vinsælasta nesti Norðmanna á gönguferðum – hvað svo sem hæft er í því. Sú markaðssetning virkar þó augljóslega því hvert einasta mannsbarn í Noregi borðar að meðaltali níu slík súkkulaðistykki á ári, svo mikil er salan. Þjóðin nálgast ört sex milljónir þegna.

28.000 áhorfendur fá ekki Freiu-súkkulaði

„Þetta hefur miklar afleiðingar fyrir Ferðamálasamtökin,“ segir Dag Terje Klarp Solvang, talsmaður þar, við norska ríkisútvarpið NRK, og Mondelez, eigandi Freiu, sem sent hefur frá sér fréttatilkynningu um sniðgönguna, kveðst sérstaklega sjá á eftir Ferðamálasamtökunum.

Þess má að lokum geta að ákvörðun norska knattspyrnusambandsins um að versla ekki við Freiu táknar að sælgæti fyrirtækisins verður ekki selt í bili á sjálfum Ullevål-leikvanginum í Ósló sem tekur 28.000 áhorfendur í sæti og hefur fóstrað ótal kappleiki og tónleika á ári í tæplega hundrað ár.

NRK

Aftenposten

Dagbladet

mbl.is