Jafnréttislögin barn síns tíma

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir jafnréttislög barn síns tíma. Óeðlilegt sé að þeir sem nú hafa veitingarvaldið séu bundnir af því að ráða konur frekar en karla, af því að forverar þeirra hafi ekki gert það, en kærunefnd jafnréttismála kemst að þeirri niðurstöðu í áliti sínu að ráða hefði átt konu, sem væri jafnhæf eða hæfari en aðrir umsækjendur, í stöðu hæstaréttardómara. Í áliti nefndarinnar er bent á að tveir dómarar af níu við Hæstarétt séu konur.

Björn sagðist í samtali við Morgunblaðið hafa fært fyrir því rök gagnvart kærunefndinni að málið félli ekki undir hana, "vegna þess að það var ekki um neina kynferðislega mismunun að ræða í mínum athöfnum þegar ég veitti þetta starf."

Björn minnir á að í umsögn sinni um umsækjendurna átta hafi Hæstiréttur talið þá alla hæfa en síðan talið tvo karla heppilegasta úr hópnum fyrir réttinn að þessu sinni. "Ef Hæstiréttur hefði talið jafnréttislög gera óhjákvæmilegt að kona yrði valin, hlyti rétturinn að hafa vakið máls á því í umsögn sinni," segir Björn. Hann segir þá röksemdafærslu kærunefndarinnar að ráða hefði átt konu í stað karls til réttarins ekki haldbæra. "Ég tel að miðað við núverandi stöðu í okkar þjóðfélagi sé það tímaskekkja að gera kröfur á þessum forsendum til þeirra sem hafa veitingarvaldið, að binda hendur þeirra á þennan veg. Það er óneitanlega mjög erfitt að fikra sig eftir þessum lögum. Sjálf framkvæmdastýra jafnréttismála mátti sæta því að kærunefndin sagði hana brjóta jafnréttislög en niðurstaða fimm dómara Hæstaréttar í því máli var að kærunefndin hefði ekki komist að réttri niðurstöðu."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert