Watai segist ætla að flytja til Íslands með Fischer

Nafnspjald Fischers á blaðamannafundinum í Tókýó í dag. Hann mætti …
Nafnspjald Fischers á blaðamannafundinum í Tókýó í dag. Hann mætti ekki. AP

Miyoko Watai, heitkona Bobbys Fischers, sagði í Tókýó í morgun að hún áformaði að flytja til Íslands með Fishcer þegar hann yrði látinn laus. „Við munum skoða síðar hvort við giftum okkur á Íslandi en því ferli hefur verið frestað," sagði hún og bætti við að Fischer hefði orðið afar glaður við að heyra fréttir af íslenskum ríkisborgararétti sínum.

Stuðningshópur Fischers hélt blaðamannafund í Tókýó í dag og til að fagna íslenskum ríkisborgararétti hans með táknrænum hætti var sett nafnspjald með nafni Fischers á háborðið í þeirri von að Fischer gæti verið viðstaddur.

„Loks fengum við ríkisborgararétt fyrir Bobby," sagði Watai en hún fór að heimsækja hann í Ushiku útlendingabúðirnar í dag.

Stuðningsmenn Fischers segja að hann hafi grennst og sé úfinn og tættur eftir nærri 9 mánaða vist í búðunum. Hann hefur tvívegis verið settur í einangrun í búðunum eftir að hafa lent í átökum við fangaverði.

„Hann hefur horast og hann hefur elst mjög hratt," sagði Watai. „Ég hugsa að ykkur bregði þegar þið sjáið hann."

Masako Suzuki, lögmaður Fischers, sagði að þegar hún færði honum þau tíðindi í morgun að hann væri orðinn Íslendingur, hefði hann svarað: „Það er gott."

Sagðist Suzuki nú ætla að fara fram á það við íslenska sendiráðið í Tókýó að það gefi út íslenskt vegabréf fyrir Fischer. Sagðist hún búast við að Fischer yrði látinn laus í þessari viku nema eitthvað óvænt gerðist.

Miyoko Watai, heitkona Fischers, brosir þegar hún kemur úr heimsókn …
Miyoko Watai, heitkona Fischers, brosir þegar hún kemur úr heimsókn til hans í dag. AP
mbl.is