Miklir sinueldar á Mýrum

Slökkviliðið í Borgarnesi hefur frá því í morgun barist við sinuelda sem nú loga á um 60 ferkílómetra svæði á Mýrum. Fram kemur á fréttavef Skessuhorns, að sem stendur reyni slökkviliðið einungis að verja húseignir á svæðinu.

Lögreglunni í Borgarnesi barst í morgun tilkynning um sinubruna við Snæfellsnesveg við Fíflholt á Mýrum. Eldurinn breiddist mjög hratt út og hefur nú náð yfir svæðið frá Fíflholtum að afleggjara í Hítardal. Lögreglan í Borgarnesi telur að nú þegar hafi eldurinn farið um 60 ferkílómetra svæði.

Haft er eftir Theódór Þórðarsyni, yfirlögregluþjóni, á fréttavefnum að strax í morgun hafi íbúar á svæðinu og eigendur húsa og búpenings verið aðvaraðir um brunann. Þar sem eldsupptök voru við þjóðveginn leiki grunur á að kviknað hafi í út frá sígarettu, sem kastað hafi verið úr bifreið.

Þá segir Bjarni Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri, að nú séu tveir tankbílar og tveir dælubílar að störfum á svæðinu auk 12 slökkviliðsmanna. Hann segir eldana það mikla nú að ekki sé hægt að líkja þeim við neitt annað en náttúruhamfarir. „Okkar starf nú beinist að því að verja þau hús sem eru á svæðinu og vonandi tekst það. Eldarnir eru það miklir að óverjandi er að hætta mönnum til þess að berjast við þá sem stendur, þar sem vindátt er mjög ótrygg og því geta menn lent í mikilli hættu fyrirvaralaust," segir Bjarni og bætir því við að eldarnir hafi farið á um 4-5 metra hraða á sekúndu.

mbl.is