Sinueldarnir slökktir en víða leynist glóð í mosa; vakthópar skipaðir

Talið er að um 100 ferkílómetra svæði hafi orðið eldinum …
Talið er að um 100 ferkílómetra svæði hafi orðið eldinum að bráð. Mbl.is/Rax

Unnið er að því að vakta svæðið á Mýrum þar sem sinueldar hafa logað síðustu daga. Að sögn lögreglunnar í Borgarnesi voru síðustu eldarnir slökktir í gær en eitthvað er um að eldglæður logi í mosa á svæðinu. Unnið er að því að reyna slökkva í glóðunum og koma í veg fyrir að eldur blossi upp á ný.

Talið er að um 100 ferkílómetra svæði hafi orðið eldinum að bráð. Landhelgisgæslan og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins tóku loftmyndir af svæðinu í gær til þess að meta það nákvæmlega hversu stórt svæði fór undir eld.

Að sögn lögreglu hafa verið skipaðir vakthópar sem munu hafa það verkefni að fylgjast með svæðinu næstu daga.

Að sögn Ólafs Egilssonar, bónda á Hundastapa, þýðir ekkert fyrir menn að yfirgefa svæðið á næstunni, eða þar til það fer að rigna. Aðspurður segir Ólafur að búist sé við því að veðrið muni snúast á morgun og vonast menn eftir rigningu sem allra fyrst.

Hann segir að víða sé glóð í mosa sem sjáist ekki berum augum. Því sé nauðsynlegt að hafa auga með svæðinu. Sú hætta sé fyrir hendi að eldarnir geti gert vart við sig á ný fari að hvessa.

mbl.is