1,2 milljarðar í reksturinn á ári

Engar upplýsingar liggja enn fyrir um hvort ratsjárstöðvum Íslenska loftvarnakerfisins (IADS) verður haldið gangandi eftir brottför varnarliðsins. Fram kom í gær að í reynd hefur ekkert eftirlit verið haft með ómerktum flugvélum í lofthelgi landsins frá í lok maí þegar varnarliðið hætti að fylgjast með merkjum frá Ratsjárstofnun, sem annast rekstur ratsjárstöðvanna.

Ratsjárgögn kerfisins hafa einnig nýst við almenna flugumferðarstjórn og skv. upplýsingum sem fengust hjá Flugmálastjórn í gær fær flugumferðarstjórnin áfram upplýsingar frá ratsjárstöðvunum og er ekki talið að breytingar verði þar á.

Mannvirki og tæki í eigu NATO

Loftvarnakerfið er einnig hluti af heildarloftvarnakerfi Atlantshafsbandalagsins (NATO) en kerfið hefur sent upplýsingar um flugumferð til sambærilegra kerfa í Bandaríkjunum, Kanada, Noregi og Bretlandi. Bandaríski flugherinn greiðir allan rekstrarkostnað loftvarnakerfisins, sem áætlað er að verði rúmlega 1,2 milljarðar kr. á yfirstandandi ári. Rúmlega 60 manns starfa hjá Ratsjárstofnun.

"Grundvöllurinn að ákvörðun Bandaríkjanna er sá að hér er ekki sú hernaðarlega ógn sem þetta kerfi er byggt upp til að mæta," segir Friðþór Eydal, upplýsingafulltrúi varnarliðsins. "Bandaríkjastjórn tilkynnti íslenskum stjórnvöldum í vor að hún myndi hætta þessari starfsemi. Síðan þá hafa menn þingað um hvað tæki við og jafnframt fékk herinn þau fyrirmæli að flytja á brott það lið sem væri hérna fyrir lok september," segir Friðþór. "Framtíðin er hins vegar alfarið í höndum íslenskra og bandarískra stjórnvalda."

Mannvirkjasjóður NATO greiddi allan byggingakostnað við mannvirki og búnað íslenska loftvarnakerfisins. Því á NATO tækin og mannvirkin sem þessu tilheyra en bandalagið leggur þau notendalandinu til, sem í þessum skilningi eru Bandaríkin skv. samkomulagi á milli Íslands og Bandaríkjanna, að sögn Friðþórs.

Ólafur Örn Haraldsson, forstjóri Ratsjárstofnunar, vill lítið tjá sig um framtíð stofnunarinnar á meðan viðræður standa yfir og vísaði á utanríkisráðuneytið. Allt fram á þetta ár hefur verið unnið að endurnýjun og viðbótum á tækjabúnaði Ratsjárstofnunar.

"Þetta er mjög fullkominn búnaður sem er alveg í fremstu röð í sínu fagi. Stofnunin er með fulla virkni og þjónustu," segir Ólafur Örn. Í fyrra var tekið í notkun þráðlaust samskiptakerfi, Link 16, og var kostnaður við verkefnið á þriðja milljarð króna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert