Hafnar alfarið ásökunum í bréfi Jóns Ásgeirs

eftir Brján Jónasson

brjann@mbl.is

Jón H. Snorrason, yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, hafnar því alfarið að villt hafi verið um fyrir yfirvöldum í Lúxemborg til að fá heimild til húsrannsóknar hjá Kaupþingi þar í landi árið 2004, eins og Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs Group, hélt fram í bréfi til ríkislögreglustjóra, sem birt var í Morgunblaðinu í gær.

Í bréfinu segir Jón Ásgeir m.a.: "Í réttarbeiðni RLS og erindum til lögregluyfirvalda í Lúxemborg í janúar, mars og apríl 2004 um aðstoð við rannsókn, var tekið fram að ég og Tryggvi Jónsson værum m.a. grunaðir um fjárdrátt, fjársvik, innherjasvik og peningaþvætti í tengslum við viðskipti við Kaupthing Luxembourg."

Allt úr lagi fært

Jón H. segir að þetta séu sakarefni í ákæru sem nú sé fyrir dómi, sem Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari í málinu, hafi gefið út á hendur Jóni Ásgeiri og Tryggva. Fullyrðingar Jóns Ásgeirs séu því rangar.

Í þeirri ákæru sem um ræðir eru 19 liðir, en þeim fyrsta hefur nú verið vísað frá. Í honum var ákært vegna fjársvika í tengslum við kaup á 10-11 verslunarkeðjunni. Í liðum 2-9 er ákært fyrir brot gegn hlutafélagalögum, í liðum 10-17 er ákært vegna meiriháttar bókhaldsbrota, í lið 18 er ákært vegna fjárdráttar í tengslum við skemmtibát á Flórída, og í síðasta liðnum er ákært vegna fjárdráttar vegna viðskipta á Flórída.

"Í réttarbeiðninni var ýtarleg lýsing á þeim fjölmörgu sakarefnum sem væru til rannsóknar. [...] Í sumum þeirra var ákæruefni en öðrum ekki. Það er eingöngu heimilt að nota þau gögn sem aflað er í því máli sem þeirra var aflað vegna," segir Jón H.

Hann segir að allt sé úr lagi fært í bréfi Jóns Ásgeirs. "Vegna sumra atvikanna hefur verið reist sakamál sem nú er til meðferðar. Þessi gögn eru sönnunargögnin sem eru á bak við þá ákæru. [...] Þetta er, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, ruglingsleg framsetning á þessu, til þess fallin að villa um fyrir lesandanum."

Hann bendir á að ákært sé vegna fjárdráttar, þó þeirri ákæru hafi raunar verið vísað frá, og vegna fjársvika. Þar sé einnig ákært vegna ætlaðra brota á lögum um verðbréfaviðskipti með því að gefa rangar upplýsingar um stöðu fyrirtækja til að hafa áhrif á gengi hlutabréfa.

Hvað varðar bréf frá saksóknara í Lúxemborg, sem Jón Ásgeir vitnar til, segir Jón H. að í því séu einfaldlega rakin ákvæði í samningum milli landa vegna gagnkvæmrar réttaraðstoðar. Þar sé skilyrt að einungis megi nota þau gögn sem aflað er vegna þeirra sakarefna, og þess máls sem getið er í réttarbeiðninni.

Ólíkar aðstæður

Í bréfi sínu gerði Jón Ásgeir einnig athugasemd við að starfsmenn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra rannsaki á ný mál sér tengd, eftir að hafa sagt sig frá fyrra máli í kjölfar frávísunardóms Hæstaréttar. "Ríkislögreglustjórinn sjálfur [...] sagði opinberlega eftir dóm Hæstaréttar, að eftir aðfinnslur réttarins ættu sakborningar í málinu heimtingu á því að annað embætti kæmi að málinu svo ekki yrði efast um málatilbúnaðinn," segir í bréfinu.

"Hér er verið að slá saman gjörólíkum aðstæðum. Þar var um að ræða að Hæstiréttur hafði vísað ákærum frá, og við töldum eðlilegt og réttmætt að ríkissaksóknari, sem er æðsti handhafi ákæruvalds, tæki málið á þessari stundu til athugunar, og mæti hvort tilefni væri til þess að gefa ákæruna út aftur," segir Jón H.

Hann hafnar því að með þessu hafi embætti ríkislögreglustjóra sagt sig frá öllum málum er varða þá einstaklinga sem komu að málinu sem vísað var frá. "Það er jú svo að ef einhver kemst í kast við lögin þá er það lögreglan sem rannsakar. Engu breytir þó lögreglan hafi rannsakað sama einstakling áður, það er ekkert val. [...] Þetta er annað mál og óskylt, þetta eru ætluð skattalagabrot [sem nú eru til rannsóknar] þannig að það er eðlilegt að þetta mál sé hjá okkur."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert