106 íbúðir skemmdust í vatnsleka á Keflavíkurflugvelli í nóvember

106 íbúðir í 13 húsum á Keflavíkurflugvelli skemmdust vegna vatnsleka í nóvember, að því er kemur fram í svari frá utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Jóni Gunnarssyni, alþingismanni, á Alþingi. Ekki liggur enn fyrir hve tjónið var mikið, metið í fjármunum.

Fram kemur í svarinu, að í byrjun apríl 2006 kom utanríkisráðuneytið á laggirnar starfshópi sem hafði það hlutverk að tryggja snurðulausa færslu á rekstri alþjóðaflugvallarins á Keflavíkurflugvelli til íslenskra stjórnvalda samfara brotthvarfi varnarliðsins. Ábyrgð á öðrum verkþáttum, svo sem rekstri og viðhaldseftirliti mannvirkja á svæðinu, var ekki skilgreind af hálfu stjórnvalda á þeim tíma, enda var varnarliðið ennþá til staðar og bar ábyrgð á slíkum verkþáttum.

Að ósk ráðuneytisins tók umræddur starfshópur við lyklum úr hendi varnarliðsins samfara brottflutningi þess og lét ganga úr skugga um að allar byggingar væru læstar. Á útfylltum gátlistum varnarliðsins kom meðal annars fram að hiti væri á öllum ofnum í húsum á ofnstillingu „2“, sem þýddi að 17 gráðu hiti átti að vera í öllum herbergjum húsanna.

Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli hafði með höndum öryggiseftirlit á svæðinu og Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli hafði eftirlit með mannvirkjum sem tilheyrðu rekstri flugvallarins.

Með yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, dags. 26. september 2006, var tekin ákvörðun um að rekstur og umsýsla mannvirkja á svokölluðu þróunarsvæði yrði, á grundvelli þjónustusamnings, falin sérstöku hlutafélagi sem lyti forræði forsætisráðherra. Hlutafélagið, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf., var stofnað hinn 24. október sl.

Gerð umrædds þjónustusamnings tafðist og ákvað utanríkisráðuneytið, með bréfi dags. 23. nóvember sl., að afhenda fjármálaráðuneytinu forræði á umsýslu allra eigna á umræddu svæði, enda þjónuðu eignirnar ekki lengur varnartengdu hlutverki. Umræddur þjónustusamningur var undirritaður hinn 9. desember sl.

Fram að þeim tíma sem fyrrgreint bréf var sent til fjármálaráðuneytisins og þjónustusamningur við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. var undirritaður bar utanríkisráðuneytið og stofnanir á vegum þess ábyrgð á svæðinu. Í kjölfar þess að vatnstjónið uppgötvaðist óskaði utanríkisráðherra þegar eftir því við Ríkisendurskoðun að gerð yrði stjórnsýsluúttekt á umsýslu utanríkisráðuneytisins, stofnana þess og annarra aðila sem komu að eftirliti og umsjón með byggingum á varnarsvæðinu á Miðnesheiði. Var þess sérstaklega óskað að úttektin beindist að stjórnsýslu þessara aðila sem varðað gæti umrætt vatnstjón. Niðurstöðu Ríkisendurskoðunar er að vænta innan skamms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert