Spurð út í samtöl við verjendur á síðustu mánuðum

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Þorkell

Saksóknari í Baugsmálinu, Sigurður Tómas Magnússon, er nú að taka skýrslu af Auðbjörgu Friðgeirsdóttur, sem var innri endurskoðandi hjá Baugi á árunum 2000-2005 en er nú áhættustjóri 365. Áður en yfirheyrslur hófust yfir Auðbjörgu hvað varðar ákæruliði 11 og 12 í málinu var hún spurð hvort hún hafi átt fundi eða samtöl við verjendur sakborninga á síðustu mánuðum.

Greindi Auðbjörg frá því að þegar málið hófst, í ágúst 2002, hafi hún starfað að ósk stjórnenda við upplýsingaöflun vegna málsins og verið milliliður milli verjanda og lögreglu í málinu. Allar götur síðan hafi hún verið í sambandi við lögmenn hvað varðar upplýsingaöflun en ekki verið í beinu sambandi við verjendur.

Ákæruliður 11 varðar færslu á vörslureikningi í Lúxemborg vegna viðskipta með hlutabréf í Urði Verðandi Skuld en Jón Ásgeir Jóhannesson og Tryggvi Jónsson eru ákærður fyrir að hafa látið rangfæra bókhaldið, það er búa til gögn sem ekki áttu sér stoð í raunveruleikanum til að gefa ranga mynd af viðskiptum og ranga stöðu hjá Baugi.

Ákæruliður 12 varðar rangar einnig rangfærslu í bókhaldi Baugs hvað varðar ranga tekjufærslu upp á 13 milljónir króna sem var færð til eignar á reikningi Kaupþings.

Við skýrslutöku gaf Auðbjörg skýringar á færslum sem tengist ákæruliðum 11 og 12 og taldi að bókhald Baugs hafi gefið rétta mynd af viðskiptum og stöðu félagsins á þessum tíma. Miðað við þær upplýsingar og forsendur sem hún hafi haft til þess að fara yfir þessi mál.

Hvað varðar 13 milljón króna tekjufærsluna til Kaupþings þá fylgdu henni engin skjöl utan sjálfrar tekjufærslunnar, sem er lágmarksskjal til þess að hægt sé að færa bókhald. Auðbjörg sagði að þetta hafi því miður ekki verið einsdæmi en á þessum tíma var unnið að því að laga þetta.

Tók Auðbjörg fram að hún hafi ekki séð um að færa bækur félagsins heldur verið innri endurskoðun og að þessar færslur hafi ekki vakið sérstaka athygli hennar á þessum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert