Segir borgarsjóð tapa hálfum milljarði á Laugavegshúsum

Laugavegur 4-6.
Laugavegur 4-6. mbl.is/Ásdís

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir að á borgarráðsfundi í dag hafi verið upplýst að húsin við Laugaveg 4-6 og Skólavörðuhús 1 hafi verið keypt á 580 milljónir króna.

Þar með sé ljóst að útgjöld borgarinnar vegna uppkaupa og uppbyggingar verði um milljarður króna og fastlega megi gera ráð fyrir því að þótt húsin verði seld í kjölfarið tapi borgarsjóður ekki minna en hálfum milljarði.

Dagur segir í tilkynningu, að á fundi borgarráðs hafi verið upplýst að samningamenn borgarinnar höfðu ekki verðmat VST og Minjaverndar undir höndum þar sem eignirnar voru metnar á hundruð milljóna lægra verði. Ekkert mat hafi heldur verið lagt á það hvaða þýðingu það hefði að seljendur hefðu í raun gefið borginni húsin með samkomulagi fyrir fáeinum vikum.

Í bókun Samfylkingarinnar á fundinum segir, að ljóst sé að kaup nýs meirihluta á fasteignum að Laugarvegi 4 og 6 stefni uppbyggingaráformum við Laugarveg og í miðborg í óefni. Keypt hafi verið hús fyrir 580 milljónir króna, ofurverð sem skapi nýtt markaðsverð í sambærilegum og svipuðum málum. 

„Hefði friðun húsanna orðið að veruleika einsog gerst hefði þremur dögum eftir hin makalausu uppkaup hefði götumyndin haldið sér, skipulagsmál í miðborginni hefðu ekki verið í uppnámi, borgarsjóður hefði ekki tapað mörg hundruð milljónum og hættulegt fordæmi hefði ekki verið skapað sem skaða mun allar frekari áætlanir um húsvernd.

Rökin um að borgin hljóti að þurfa að grípa inn í með uppkaupum þegar friðun húsa er í réttum farvegi halda engan veginn og hljóta að vekja margar spurningar nú þegar tillaga um friðun 10 húsa við Laugaveg er í farvatninu. Þessi málsmeðferð og þetta verð stefnir friðunartillögum og húsverndaráformum í miðborg og Kvos í voða," segir í bókuninni.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina