Afar öflugur jarðskjálfti

Fólk þusti út á götu í Borgartúni í Reykjavík eftir …
Fólk þusti út á götu í Borgartúni í Reykjavík eftir að skjálftinn reið yfir.

Afar öflugur jarðskjálfti, 6,1 stig á Richter, varð klukkan 15:45 og átti upptök sín suðvestur af Selfossi. Engar tilkynningar hafa borist um slys á fólki  en á Selfossi og í Hveragerði hrundu munir úr hillum. Enn finnast eftirskjálftar. 

Skjálftinn fannst vel á höfuðborgarsvæðinu og raunar allt til Ísafjarðar. Grjóthrun er í Vestmannaeyjum og vegurinn undir Ingólfsfjalli er lokaður.  Á Hvolsvelli fannst skjálftinn einnig vel en ekki hrundu munir úr hillum.

Samhæfingarstöð almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra hefur verið  virkjuð og verður fylgst með ástandi mála þar. Allar björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Árnessýslu hafa verið kallaðar út vegna jarðskjálftans. Einnig hafa sveitir á höfuðborgarsvæðinu og í Rangárvallarsýslum verið settar í viðbragðsstöðu. Fólk er beðið um að nota ekki síma að óþörfu.

Jarðskjálftarnir tveir sem riðu yfir Suðurland í júní 2000 mældust 6,5 til 6,6 stig á mælum Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Bandaríkjanna.

Vefur um jarðskjálfta og náttúruhamfarir

mbl.is

Bloggað um fréttina