Gunnar yfirheyrður

Gunnar Þorsteinsson.
Gunnar Þorsteinsson.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu yfirheyrði Gunnar Þorsteinsson, forstöðumann Krossins, í morgun vegna ásakana átta kvenna um kynferðisbrot. 

Ríkisútvarpið hafði eftir Brynjari Níelssyni, lögmanni Gunnars, að hann hefði verið spurður um meint brot, sem hefðu átt að eiga sér stað á níunda ártug síðustu aldar. Gunnar hefði neitað sök.

Gunnar ákvað í nóvember á síðasta ári að stíga tímabundið til hliðar sem forstöðumaður trúfélagsins Krossins vegna ásakananna. Í desember ákvað stjórn trúfélagsins að skipa fagráð til að fjalla um málið.

Fram kemur á vef Krossins eftir að hafa leitað til hóps einstaklinga sem að mati sérfræðinga höfðu hæfi að bera til setu í ráðinu hafi komið í ljós að enginn var  tilbúinn til að taka það verkefni að sér.  Með kæru til lögreglu hafi ásakendur síðan tekið málin í sínar hendur og líti stjórn Krossins eðlilega svo á að frekari vinna við að setja á fót fagráð sé ekki til neins. 

Gunnar sagði í yfirlýsingu, sem hann sendi mbl.is í mars, eftir að málin voru kærð til lögreglu, að hann teldi heppilegt að málið væri loksins komið í lögformlegan farveg, eins og hann hefði ítrekað óskað eftir. Sagðist hann vænta þess að þannig megi ljúka þessu máli og leiða fram hið sanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert