Gos hugsanlega hafið

Mikið íshröngl er á veginum eftir að öldutoppur kom niður …
Mikið íshröngl er á veginum eftir að öldutoppur kom niður Múlakvísl í nótt. mbl.is/Jónas

„Það er vel hugsanlegt að lítið gos sé hafið í Kötlu,“ segir Sigurlaug Hjaltadóttir jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands. Hún segist draga þessa ályktun út frá sjálfvirkum óróamælum sem gefi til kynna að gosórói sé í gangi.

Mælar á sunnanverðu landi sýna gosóróa, en óróinn kemur ekki fram á mælum á Norðurlandi. Sigurlaug segir þetta benda til að hugsanlegt gos sé enn sem komið er lítið. Jarðvísindamenn flugu upp að Mýrdalsjökli snemma í morgun og Sigurlaug segir beðið eftir fréttum af því sem þeir sjá.

Tveir vatnshæðarmælar eru í Múlakvísl þar sem hlaup hófst laust fyrir miðnætti. Um kl. 4 sýndi efri mælirinn að vatnshæðin jókst mjög skyndilega um fimm metra. Þá var tekin ákvörðun um að loka veginum. Um sex mínútum síðar skall þessi alda á þjóðveginum og eyðilagði þá brúin yfir Múlakvísl.

Jónas Erlendsson bóndi í Fagradal segir að aldan hafi lyft vestari enda brúarinn af stöpli sínum. „Brúin sneri í vestur-austur, en hún snýr núna í norður-suður.“

Ljóst er að tjón Vegagerðarinnar er mikið, en brúin yfir Múlakvísl var 128 metra löng, byggð 1990.

Í tilkynningu frá Mílu segir að suðurleið landshrings ljósleiðara Mílu sé rofin milli Víkur og Fagurhólmsmýrar. Viðgerðarmenn eru að skoða aðstæður. Sennilegast er að þetta hafi gerst þegar brúin eyðilagðist.

Jónas sagði að hlaupið hefði ekki grafið frá stöplum brúarinnar heldur hefði það einfaldlega tekið brúna með sér.

Allmargir jarðskjálftar hafa verið á Mýrdalsjökli í nótt, en þeir hafa allir verið litlir. Stærsti skjálftinn var um 2 af stærð.

Katla gaus síðast árið 1918. Jarðvísindamenn hafa í nokkur ár búist við gosi í eldfjallinu enda er óvenjulega langt frá síðasta gosi.

Til að gos í Kötlu nái upp á yfirborðið þarf eldstöðin að bræða þykkan ís sem er í öskjunni. Þess vegna er Katla talin með hættulegust eldfjöllum á Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina