Þarf að fara vandlega yfir kauptilboð Huangs

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði í fréttum Útvarpsins í dag að grandskoða verði alla löggjöf og stjórnarskrá með það fyrir augum að tryggja almannaeign á náttúrunni og auðlindunum. Farið verði yfir kauptilboð Huangs Nubo í Grímsstaði á Fjöllum í því ljósi.

Huang Nubo hefur gert kauptilboð í Grímstaði á Fjöllum og hyggst reisa þar lúxushótel. Ögmundur sagði að slíkt væri ekki leyfilegt samkvæmt íslenskum lögum en hægt væri að sækja um undanþágu til innanríkisráðuneytisins. Slík beiðni hafi ekki borist en þegar það gerðist verði hún skoðuð  gaumgæfilega.

Ögmundur sagði, að Íslendingar stæðu nú frammi fyrir því, að erlendur auðmaður vilji kaupa upp 300 ferkm af íslensku landi. „Þetta þurfum við að ræða og ekki kyngja ómelt, væri okkur sama ef landið væri allt selt með þessum hætti?“ sagði Ögmundur í fréttum RÚV.

Hann sagði að ræða þurfi kaupin í ljósi heildarhagsmuna og hugsa langt fram í tímann „og ég verð að segja það að mér finnst menn oft vera æði-fljótir að kyngja ómeltu öllu því sem borið er á borð,“ bætti hann við.

Vefur RÚV

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert