Erfitt að draga línuna

Snorri Óskarsson
Snorri Óskarsson mbl.is

Skrif Snorra Óskarssonar, Snorra í Betel, kennara í Brekkuskóla á Akureyri, um samkynhneigða ganga í berhögg við siðareglur Kennarasambands Íslands. Á bloggsíðu sinni skrifar Snorri að samkynhneigð sé synd. Siðareglurnar kveða á um að kennarar skuli sýna öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu. Foreldri í skólanum segir skrifin bera vott um mannfyrirlitningu og fordóma af hæstu gráðu. 

„Við erum oft að fást við einstaklingsmál sem tengjast samskiptaerfiðleikum í skólum,“ segir Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara. Hann segir að starfandi sé siðaráð hjá Kennarasambandinu, en það úrskurði ekki um hvort kennarar brjóti siðareglur.

„Auðvitað er alltaf erfitt að segja til um hvar mörkin á milli einkalífs og starfs liggja,“ segir Ólafur og segist ekki minnast þess að áþekkt mál hafi komið inn á borð félagsins.

En hvað finnst þér sem formanni Félags grunnskólakennara um að félagsmaður skuli tjá sig um einstaka þjóðfélagshópa á þennan hátt á opinberum vettvangi? „Auðvitað eiga kennarar, eins og aðrir hópar, sitt einkalíf. En þeir verða að muna að þeir eru fyrirmyndir og ég veit ekki annað en að okkur sé uppálagt að kenna nemendum okkar umburðarlyndi og víðsýni. Einhversstaðar hlýtur að vera einhver lína sem hægt er að fara yfir. En það er spurning: hver á að segja til um það hvenær farið er yfir þessa línu? Við sem félag höfum ekki tamið okkur að skera úr um þetta.“

Siðareglur eru skýrar

Í siðareglum, sem samþykktar voru á þingi KÍ í apríl 2011, segir meðal annars að kennara beri að efla með nemendum gagnrýna hugsun, virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, umhverfi og menningu. Hann eigi að hafa jafnrétti að leiðarljósi, vinna gegn fordómum og sýna öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu. Að auki á kennari að gæta heiðurs og hagsmuna stéttar sinnar.

Í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna segir að starfsmaður skuli gæta kurteisi, lipurðar og réttsýni í starfi sínu. „Hann skal forðast að hafast nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein er hann vinnur við.“

Mannfyrirlitning og fordómar af hæstu gráðu

„Mér finnst bloggið hryllilegt og finnst það bera vott um mannfyrirlitningu og fordóma af hæstu gráðu,“ segir Logi Már Einarsson, foreldri tveggja barna í Brekkuskóla og skólanefndarfulltrúi. Spurður að því hvort skrif Snorra hafi verið tekin fyrir á fundum skólanefndar, segist hann ekki mega tjá sig um það.

Logi segir marga foreldra hafa haft samband við sig vegna þessa og að mikil óánægja sé meðal þeirra. „Þetta snýst um að hvaða leyti tjáningarfrelsinu eru settar skorður og hvað er við hæfi að barnaskólakennari láti sér um munn fara. En það er ótrúlega barnaleg hugmynd að halda að maðurinn taki á sig einhvern annan ham þegar hann stígur út úr skólastofunni.“

Logi segist ekki geta staðfest að Snorri hafi rætt skoðanir sínar í kennslustundum. „Enda þarf hann þess ekki, þetta er á opinni bloggsíðu og flest börn hafa aðgang að netinu.“

„Þetta er trúnaðarmál og ég ætla ekki að tjá mig um þetta núna. Málið er í ferli og á viðkvæmu stigi,“ segir talsmaður skólaskrifstofu Akureyrarbæjar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert