„Ég furða mig á þessari yfirlýsingu“

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli

Samningsmarkmið Íslands í sjávarútvegsmálum vegna umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið hafa ekki verið kynnt utanríkismálanefnd Alþingis. Þetta segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sem á sæti í nefndinni.

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag hefur evrópska fréttaveitan Agence Europe eftir Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra að Ísland sé reiðubúið að leggja fram samningsmarkmið sín í sjávarútvegsmálum en hann var í gær staddur á ríkjaráðstefnu Íslands og ESB í Brussel þar sem þrír nýir samningskaflar voru opnaðir í viðræðunum.

„Ég furða mig á þessari yfirlýsingu sem höfð er eftir utanríkisráðherra þar sem engin slík samningsmarkmið hafa verið kynnt utanríkismálanefnd þingsins,“ segir Ragnheiður Elín og minnir á að þingmenn hafi ítrekað kallað eftir því að farið væri eftir áliti meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis sem samþykkt var 2009 í tengslum við umsóknina þar sem talað væri um víðtækt samráð við Alþingi svo að þingið stæði ekki frammi fyrir orðnum hlut.

mbl.is