Spyr hvort Valitor hafi sagt Alþingi ósatt

Árni Þór Sigurðsson, alþingismaður.
Árni Þór Sigurðsson, alþingismaður. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þegar þetta er skoðað verður því ekki komist hjá því að spyrja hvort kortafyrirtækin hafi sagt Alþingi ósatt um aðkomu sína að málinu og þann ásetning, sem nú blasir við, að loka fyrir viðskipti við DataCell og greiðslur til Wikileaks,“ segir Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Facebook-síðu sinni í tilefni af þeirri niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur að Valitor beri að opna fyrir greiðslugátt DataCell en fyrirtækið hefur meðal annars þjónustað uppljóstrunarsíðuna Wikileaks.

„Þegar Valitor ákvað að loka greiðslugátt DataCell og þar með greiðslur til Wikileaks, fjallaði allsherjarnefnd Alþingis um málið. Kom þar fram hörð gagnrýni á ákvörðun greiðslukortafyrirtækisins og vildu sumir þingmenn jafnvel endurskoða rekstrarleyfi þess, enda væri um að ræða grófa aðför að tjáningarfrelsinu,“ segir Árni. Þar hafi hins vegar komið fram þau varnarsjónarmið að Valitor væri ekki aðili að málinu heldur einungis umboðsaðili fyrir erlenda fyrirtækið Teller og í raun aðeins að fylgja fyrirmælum erlendis frá. Sömu sjónarmið hafi komið fram hjá Borgun.

„Nú þegar Valitor hefur tapað dómsmáli fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, sem hefur komist að sömu niðurstöðu og við sem gagnrýndum ákvörðun kortafyrirtækjanna, ber svo við að fyrirtækin vilja ekki una niðurstöðunni og ætla að áfrýja dómnum til Hæstaréttar. Það er réttur þeirra að sjálfsögðu. En fyrirtækin vildu ekki kannast við það þegar þau mættu fyrir þingnefnd, að þau ættu aðild að málinu og væru einungis að fylgja fyrirskipunum að utan og ætluðu sér alls ekki að taka þátt í því að brjóta lög hérlendis,“ segir Árni ennfremur.

Facebook-síða Árna Þórs Sigurðssonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert