„Ótrúlega lífseigar skepnur“

Frá fjárleit við Þeistareyki í september.
Frá fjárleit við Þeistareyki í september. Skapti Hallgrímsson

Enn er fé að finnast á lífi í Skagafirði, tæpum sex vikum eftir mikið hausthret 10. og 11. september. Féð er býsna sprækt miðað við aðstæður. Verið er að safna saman upplýsingum frá bændum um fjárskaða og verður þeim komið til Bjargráðasjóðs. Dautt fé er víða á afréttum, en lítið er hægt að gera í því að sinni.

Líklegt er talið að samtals á milli 4.000 og 5.000 fjár hafi ýmist fundist dauð eða sé enn saknað í Skagafirði, en endanleg tala liggur ekki fyrir.

„Við erum að klára að safna og vinna úr upplýsingum frá bændum,“ segir Eiríkur Loftsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Skagafjarðar. Hann segist ekki geta fullyrt hversu mikils fjár sé enn saknað, en ljóst sé að það skipti að minnsta kosti hundruðum.

Ekki hlaupið að því að finna dautt fé

Eiríkur segir að samkvæmt reglum eigi að urða búpening sem liggi dauður, hann eigi ekki að liggja á víðavangi vegna smithættu. „Auðvitað er óþrifnaður af þessu. En það er ekki hlaupið að því að nálgast þetta eins og er og það sem er á kafi í snjó er ekki hægt að finna. “

Kemur gleðilega á óvart

Hann segir að enn finnist fé á lífi og það komi bændum gleðilega á óvart. „Bændur í  Lýtingsstaðahreppi fundu nokkuð af fé á lífi fyrr í vikunni. Þetta eru ótrúlega lífseigar skepnur. Það er lítið eftir af holdum á þeim, en sumar hafa getað staðið upp og lagst og haft aðgang að vatni eða snjó. En maður á varla von á að finna lifandi fé að ráði eftir þetta.“ 

Eiríkur segir að það fé sem nú sé að finnast hafi gengið verulega á bæði vöðva og fitu. Byrjað sé á því að gefa því litla heyskammta og koma því þannig í gang. „Það þarf að fara varlega af stað.“

Fé við Þeistareyki.
Fé við Þeistareyki. þeistareykir.is
Svæðið, þar sem fjár var leitað.
Svæðið, þar sem fjár var leitað.
mbl.is

Bloggað um fréttina