Ábyrgðin á heilbrigðiskerfinu er stjórnvalda

Afstaða hjúkrunarfræðinga kom með afgerandi hætti fram á fjölmennum fundi …
Afstaða hjúkrunarfræðinga kom með afgerandi hætti fram á fjölmennum fundi í gær. Þeir hafna tilboði ríkisins og vilja að stærra skref sé tekið. mbl.is/Árni Sæberg

Afgerandi niðurstaða á fundi hjúkrunarfræðinga á Landspítala í gær er til marks um að tilboð stjórnvalda um launahækkun dugi ekki. Til lítils er að skrifa undir samning ef hann kemur ekki í veg fyrir uppsagnir vegna þar sem meirihlutinn sé enn óánægður. Þetta segir Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

„Það má ekki gleymast að þótt 4-6 fulltrúar skrifi undir svona samning  tekur það ekki valfrelsið og sjálfstæðið af hjúkrunarfræðingum. Þótt samningar náist er það engin trygging fyrir því að fólk segi ekki upp ef því finnst þetta ekki nægilegt,“ segir Elsa.

280 hjúkrunarfræðingar í tæplega 214 stöðugildum hafa sagt upp störfum á spítalanum og taka flestar uppsagnirnar gildi um næstu mánaðamót.

Fjölmennasti fundur í sögu félagsins

Samstarfsnefnd Landspítala og hjúkrunarfræðinga fundar klukkan 13 í dag, en á fundi hjúkrunarfræðinga í gærkvöld greiddu 90% viðstaddra atkvæði með því að tilboð stjórnvalda, um 2,5% - 12,5% launahækkun verði hafnað. Um 600 hjúkrunarfræðingar sóttu fundinn sem er sá fjölmennasti í stéttinni í manna minnum.

„Ég man aldrei eftir öðru eins og held ég geti fullyrt að annað eins hefur sjaldan eða aldrei gerst í 90 ára sögu félagsins,“ segir Elsa. Niðurstaða kosningarinnar, sem er ráðgefandi, er því afgerandi og skýr.

Stjórnvöld segjast ætla að veita 370 milljónir króna í endurskoðun stofnanasamnings. Þar af eru launatengd gjöld um 25% þannig að sú upphæð sem skiptist milli 1.348 hjúkrunarfræðinga Landspítalans nemur tæpum 300 milljónum. Að jafnaði er launahækkunin um 4,8%.

Geta ekki framfleytt sér

Dagvinnulaun hjúkrunarfræðinga eru um 381 þúsund krónur á mánuði og hafa þeir farið fram á að kjör þeirra verði bætt til jafns við aðra háskólamenntaða ríkisstarfsmenn, sem þýðir tæplega 100 þúsund króna hækkun upp í 476 þúsund krónur. Tilboð ríkisins nú þýðir því að almenn dagvinnulaun verða enn undir 400 þúsund krónum.

Aðspurð segir Elsa að hækkunin dreifist misjafnlega og miðað við það tilboð sem nú er á borðinu fái þeir mesta hækkun sem eru með viðbótarmenntun, s.s. meistaranám, og vinna mikið af helgarvinnu eða 24 klukkustundir aðra hverja helgi.

„Þetta telja menn að verði til þess að ýta fólki út í mjög ófjölskylduvæna vinnutíma,“ segir Elsa. Hjúkrunarfræðingar í hefðbundinni dagvinnu og nýútskrifaðir fái ekkert út úr þessu. „Þetta er það fólk sem er að hefja sinn starfsferil og er með lítil börn og fjölskyldu. Það getur ekki framfleytt sér á 286 þúsund króna dagvinnukaupi.“

Vilja vilyrði fyrir næstu skrefum

Elsa segir hjúkrunarfræðinga gera sér grein fyrir því að launin verði ekki jöfnuð í einu skrefi, en þetta fyrsta skref sé of lítið. Í ljósi þess að launaldið áfram að aukast síðan í haust óttast Elsa að svo lítil hækkun sem þessi muni strax hverfa.

Elsa segist einnig vilja sjá vilyrði um næstu skref í kjölfarið, s.s. um aðra hækkun í næstu kjarasamningum um áramótin og þriðja skrefið í næstu stofnanasamningum þar á eftir. „Þetta tvennt tel ég að þurfi að koma til núna, annars vegar að stækka þetta skref sem nú er stigið og hins vegar að gefa okkur einhvers konar fyrirheit um að meira sé í vændum.“

Hjúkrunarfræðingar gera sér að sögn Elsu vel grein fyrir ábyrgð sinni og vilja síst allra að afleiðingar launabaráttunnar bitni á sjúklingum. „En að því sögðu þá ítrekum við líka að það eru stjórnvöld sem bera ábyrgð á heilbrigðiskerfinu. Þeirra er að tryggja að hér sé hægt að veita viðunandi heilbrigðisþjónustu og því verða stjórnvöld að hafa bæði vilja og dug til að forgangsraða fjármunum þannig að það sé hægt.“

Elsa B. Friðfinnsdóttir
Elsa B. Friðfinnsdóttir mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina