Karl Vignir áfram í gæsluvarðhaldi

Karl Vignir var úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald í síðustu …
Karl Vignir var úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald í síðustu viku. Pressphotos.biz

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst um miðja viku á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu þess efnis að barnaníðingurinn Karl Vignir Þorsteinsson verði áfram í gæsluvarðhaldi. Karl Vignir sem játað hefur brot gegn fjölmörgum börnum verður í haldi lögreglu í að minnsta kosti einn mánuð til viðbótar. Þetta staðfesti Björgvin Björgvinsson yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins í samtali við mbl.is.

„Þó ég sé skepna inn að beini vil ég ekki ljúga,“ sagði Karl Vignir á upptökum sem birtar voru í Kastljósi Ríkissjónvarpsins 7. janúar síðastliðinn. Þar játaði hann kynferðisbrot gegn tugum barna, bæði drengja og stúlkna. „Ég get ekki svarað því hvers vegna ég var ekki stoppaður af,“ sagði hann þá. 

Stuttu eftir þáttinn var Karl Vignir handtekinn og færður til yfirheyrslu. Þess var í kjölfarið krafist að hann sætti gæsluvarðhaldi. Karl Vignir hefur ekki mótmælt því að sæta gæslu. Fjölmargar kærur hafa síðan borist lögreglu vegna brota Karls Vignis. Mörg málanna eru fyrnd en þó ekki öll. 

Að sögn Björgvins Björgvinssonar miðar rannsókn vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert