Ofbeldi ekki liðið á stofnunum

Ný skýrsla vekur athygli á því að fatlaðir einstaklingar verða …
Ný skýrsla vekur athygli á því að fatlaðir einstaklingar verða frekar fyrir ofbeldi en aðrir. Kristinn Ingvarsson

„Það er mikið gagn af því að fá svona skýrslu en hún vekur athygli á því að fatlað fólk, hvort sem það eru börn eða fullorðnir, er útsett fyrir ofbeldi,“ segir Gerður Árnadóttir, formaður Þroskahjálpar. Líkt og greint var frá á mbl.is í gær, var nýlega unnin skýrsla fyrir velferðarráðuneytið um ofbeldi gegn fötluðum konum.

Í viðtölum við þrettán fatlaðar konur kom fram að þær höfðu orðið fyrir ofbeldi af ýmsu tagi, allt frá einelti í æsku til kynferðislegt ofbeldis af hálfu maka eða starfsfólks á heimilunum fatlaðs fólks. Höfundar skýrslunnar segja ljóst að rannsaka þurfi ofbeldi gegn fötluðum konum enn frekar.

Kynfræðsla fyrir fatlað fólk aðgengilegri í dag

Í skýrslunni koma meðal annars fram nokkrar tillögur að úrbótum sem settar eru fram í ljósi niðurstaðna hennar. „Það skiptir miklu máli að leita allra leiða til þess að draga úr og reyna að fyrirbyggja ofbeldi gegn fötluðu fólki, börnum og fullorðnum, og leita allra þeirra leiða sem við höfum til þessa að minnka líkurnar á því að fólk verði fyrir einhverju,“ segir Gerður.

Í viðtölunum við konurnar kom meðal annars fram að skortur væri á fræðslu til kvenna með þroskahömlun um hvað einkennir heilbrigt kynlíf og gott parasamband. Ekki hefði verið staðið nógu vel að kynfræðslu og kallað var eftir fræðslu sem væri sérsniðin að þörfum þessa hóps.

„Við hjá Þroskahjálp höfum áhyggjur af þessu og unnið í samvinnu við Fjölmennt og Ás Styrktarfélag í kennsluefni, bækling sem tengist kynferðisofbeldi ætluðum ungu fólki með þroskahömlun,“ segir Gerður. „Bæklingurinn útskýrir hvað kynferðisofbeldi er og fjallar um varnir gegn því.“ Hún leggur áherslu á að fræðsla til ungs fatlaðs fólk og fatlaðs fólks almennt skipti mjög miklu máli. Þá sé einnig mikilvægt að vinna með sjálfseflingu fólks og gæta þess að það sé meðvitað um rétt sinn.

„Í dag er kynfræðsla miklu aðgengilegri í skólum,“ segir Gerður. Hún nefnir sem dæmi hluta af kennslu á starfsbrautum framhaldsskóla, en þá er farið yfir kynfræðslu og önnur tengd mál. „Ég held að það sé víða verið að vinna í þessum málum og fólk viti meira í dag en fyrir fimmtán árum síðan. Ógnin er þó alltaf til staðar, að einhver misnoti.“

Verðum að vera vakandi

Nokkrar kvennanna lýstu því að þær hefðu orðið fyrir ofbeldi af hendi starfsfólk stofnana. „Það er mikilvægt að það séu skýr skilaboð þar sem fólk dvelur að ofbeldi sé aldrei liðið,“ segir Gerður. „Nýta verður þær leiðir sem færar eru til að sjá til þess að fólk sem er líklegt til að beita ofbeldi sé síður ráðið í þessa vinnu.“

Gerður sagði skýrsluna vekja athygli á stöðu fatlaðra einstaklinga. Mikilvægt sé að vekja athygli á stöðu þessa hóps og vera vakandi fyrir því að leita allra leiða til að draga úr því að fatlað fólk verði fyrir ofbeldi og bregðast við þegar það gerist.

„Það er engin einföld leið til að koma í veg fyrir ofbeldi,“ sagði Gerður. „Það skiptir gríðarlega miklu máli að við séum vakandi og meðvituð um vandann.“

Frétt mbl.is: Löng saga undirokunar og ofbeldis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert