Skuldug heimili sett í nefnd

Helgi Hjörvar
Helgi Hjörvar Ómar Óskarsson

„Ríkisstjórnin hefur tilkynnt að auðlegðarskattur á 5.000 ríkustu heimili í landinu verði ekki framlengdur á næsta ári, en hann gefur tæpa 10 milljarða í tekjur í ár. Í gær dreifði svo Framsóknarflokkur frumvarpi um lækkun veiðigjalds um 4-6 milljarða á næsta ári,“ sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, á Alþingi í dag og sagði það ekki verða skýrara að útgerðar- og efnafólk fái pening strax í dag á sama tíma og skuldug heimili væru sett í nefnd.

„Nóg er til af peningum, en ríkisstjórnin situr samt á fundum og ræðir um niðurskurð á mikilvægri velferðarþjónustu.“

Hann sagði þó að ekki mætti einungis gagnrýna og að hann fagni yfirlýsingu ríkisstjórnarflokka um að leiðrétta ætti skerðingar á öldruðum og öryrkjum frá árinu 2009. Þá kallaði hann eftir frumvarpi þess efnis og sagði að það ætti að hafa forgang fram yfir frumvarp um lækkun skatta á útgerðarmenn. „Framsóknarflokkurinn flýgur sem hann er fiðraður til,“ sagði hann að lokum.

mbl.is