LÍN hafnaði sáttatillögu stúdenta

Háskóli Íslands
Háskóli Íslands mbl.is/Ómar Óskarsson

„Sáttaumleitan stúdenta var hafnað á fundinum, þetta var ákveðin þrautalending af okkar hálfu og henni var hafnað,“ segir María Rut Kristinsdóttir, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, en fulltrúar stúdentaráðs funduðu í dag með stjórn LÍN um fyrirhugaðar breytingar á útlánareglum sjóðsins. Breytingarnar fela í sér að námsframvindukröfur verða auknar úr 60% í 75% af 30 eininga önn, eins og krafan hefur verið. Krafan fer því úr 18 einingum upp í 22 einingar.

Samþykkt með þremur undantekningum

Breytingarnar voru samþykktar á fundinum áðan, með þremur undantekningum, en þessar undantekningar eru í raun komnar til vegna nokkurra af mörgum athugasemdum sem stúdentar bentu á á fundi með ráðherra, stjórnarformanni LÍN og framkvæmdastjóra LÍN.

Þær eru í fyrsta lagi að hægt verður að skoða árið í heild sinni að vori til. Ef náð er yfir 44 einingum á skólaári í heild sinni á námsmaður þannig rétt á láni í hlutfalli við árangur. „Þetta gerir það að verkum að sumir munu samt sem áður sitja uppi með sárt ennið um jólin. Þetta er bara tilfærsla á vandanum og getur haft áhrif á yfir 1.000 námsmenn og leysir því ekki 10 eininga vandann sem við höfum áður bent á að sé alvarlegur vandi,“ segir Jórunn Pála Jónasdóttir, lánasjóðs- og hagsmunafulltrúi stúdentaráðs.

Þá verður einnig litið til einingaskila við sérstakar aðstæður. Ef námsmaður á minna eftir en því sem nemur 22 einingum á síðustu önn sinni þarf hann ekki að bæta við sig og fær  því námslán í hlutfalli við það sem hann á eftir. Þó með því skilyrði að það sé yfir 15 einingum.

Þá var það dregið til baka í kjölfar athugasemda stúdentaráðs og Freyju Haraldsdóttur, að hertar námsframvindukröfur nái einnig til lesblindra og öryrkja.

Stúdentaráð fór fram á seinkun

Tillaga stúdentaráðs á fundinum áðan fól meðal annars í sér að gildistöku yrði seinkað fram til áramóta og stúdentar gætu þannig brugðist við, en grunnframfærslan myndi samt sem áður hækka. „Ekki var fallist á að hægt væri að hækka bæði grunnframfærslu og fresta breytingunum, en við gátum vissulega ekki farið að tala gegn grunnframfærsluhækkun. Þetta var því alltaf leiðin sem þau vildu fara,“ segir María Rut.

Hún segir meintan tímaskort ekki standast skoðun. „Við erum í raun mjög skúffuð yfir því að þetta sé lokaniðurstaðan og ekki hafi verið tekið tillit til sparnaðartillagna okkar sem námsmannahreyfingarnar unnu að dag og nótt. Tillögurnar voru varfærnislega reiknaðar og hljóðuðu upp á ríflega 500 milljónir en ekki virðist vera sjálfsagt fyrir stúdenta í stjórn LÍN að fá aðgang að gögnum til jafns við aðra stjórnarmeðlimi.“

Skoða að leita réttar síns

Meirihluti stjórnar LÍN bað minnihlutann um að víkja af fundinum á meðan farið yrði yfir tillögurnar. „Þegar við komum til baka var okkur tilkynnt að það sem til boða stæði væru þeirra tillögur,“ segir Jórunn Pála.

Hún segir stúdentaráð íhuga að leita réttar síns. „Við erum að íhuga að láta Umboðsmann Alþingis skoða málið eða jafnvel að höfða mál og þá sérstaklega vegna fyrirvarans. Þetta er alltof skammur fyrirvari á svo viðamiklum breytingum.“ Þá verði sérstaklega að horfa til þess í því samhengi að síðasti dagur til að greiða skrásetningargjald við Háskóla Íslands er á morgun, en reglurnar séu hins vegar enn ekki birtar.

María Rut segir samstarfsvilja LÍN hafa verið lítinn sem engan. „Viðmót starfsmanna gerði okkur nánast ókleift að vinna að öðrum lausnum, en sá samstarfsvilji var ekki til staðar og við komum nánast að lokuðum dyrum hvarvetna innan Lánasjóðsins. Við trúum því í einlægni og af fullri alvöru að hægt sé að leysa þetta mál á annan hátt.“

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra á þó enn eftir að staðfesta breytingarnar. „Ég vona að Illugi sjái að sér og íhugi okkar sáttatillögu betur. Ég trúi því að hægt sé að finna aðra fleti á niðurskurði ef málið er skoðað í samhengi,“ segir María Rut.

Gefast ekki upp

„Við munum ekki hætta okkar þrýstingi,“ segir María Rut. Hún segir að Stúdentaráð muni fylgjast vel með stöðu mála og gæta þess að héðan af verði samráð viðhaft ef fara eigi út í svo viðamiklar breytingar. „Við hættum ekki að vera á verðinum og munum beita okkur fyrir endurskoðun á lánasjóðnum í heild sinni. Þar er margt sem þarf að skoða fyrir utan þetta mál.“

Frétt mbl.is: „Ekkert til að hrópa húrra fyrir“

Frétt mbl.is: Segja tillöguna geta skaðað menntakerfið

mbl.is