Glitnismenn neituðu sök

Glitnismenn fyrir dómi í dag ásamt verjendum sínum.
Glitnismenn fyrir dómi í dag ásamt verjendum sínum. mbl.is/Rósa Braga

Þrír starfsmenn sem allir störfuðu hjá Glitni banka neituðu sök þegar mál sérstaks saksóknara gegn þeim var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Mennirnir eru ásamt einum til viðbótar ákærðir fyrir umboðssvik, markaðsmisnotkun og brot gegn lögum um ársreikninga. Fjórði maðurinn tjáði sig ekki um ákæruefnið að svo stöddu þar sem hann lagði fram kröfu um frávísun og fór fram á að fyrst yrði leyst úr þeirri kröfu.

Mennirnir eru Birkir Kristinsson, sem var starfsmaður einkabankaþjónustu Glitnis, Jóhannes Baldursson, sem var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta, Elmar Svavarsson, sem var verðbréfamiðlari, og Magnús Arnar Arngrímsson, sem var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs.

Ákæran kemur til vegna 3,8 milljarða lánveitingu bankans til félagsins BK-44 í nóvember 2007. Félagið var í eigu Birkis og eru Jóhannes, Magnús og Elmar ákærðir fyrir umboðssvik með því að veita félaginu lánið sem notað var til að kaupa bréf í Glitni. Bankinn keypti svo bréfin aftur af Glitni á árinu 2008 og segir sérstakur saksóknari að það hafi verið á yfirverði.

Birkir er ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikunum en til vara hylmingu og peningaþvætti. Hann hagnaðist um 86 milljónir á viðskiptunum, að því segir í ákærunni. Hann fór fram á það við þingfestinguna í dag að málinu verði vísað frá. Ekki kom fram í hverju frávísunarkrafan felst en tekist verður á um hana 18. október næstkomandi.

Saklaus atburðarrás slitin í sundur

Verjandi eins mannanna lagði fram bókun við þingsetninguna. Í henni kom fram að mikilvægt sé að horfa til þess að enginn hagnaðist né tapaði á viðskiptunum. Engin áhætta var tekin í tengslum við þau og verð sem tilkynnt voru til Kauphallarinnar voru í öllum tilvikum markaðsverð.

Hann sagði að sérstakur saksóknari hefði slitið saklausa atburðarrás í sundur, það væri mjög ósanngjarnt og þeirri aðferð hans væri mótmælt. 

Þá kom fram að slitastjórn Glitnis hefur höfðað einkamál á hendur tveimur sakborninga vegna sömu viðskipta og krefur þá um bætur. Sérstakur saksóknari lagði fram greinargerð úr einkamálinu og mótmæltu verjendur því. 

Glitnir
Glitnir mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert