Ranglega aftur að sakborningi

Dómararnir í svonefndi BK-44 voru ekki alfarið á einu máli þegar dómur í málinu var kveðinn upp í Hæstarétti í gær og skilaði einn dómaranna, Ólafur Börkur Þorvaldsson, séráliti þess efnis að vísa bæri málinu frá héraðsdómi hvað varðaði einn hinna ákærðu, Birki Kristinsson. Fjórir fengu fangelsisdóma í málinu og þar af Birkir í fjögur ár meðal annars fyrir stórfellda markaðsmiðsnotkun.

Ólafur vísar til þess að Birkir hafi upphaflega verið yfirheyrður í desember 2011 sem sakborningur í málinu en við næstu skýrslutöku í sama mánuði hafi hann fengið stöðu vitnis. Þegar þriðja skýrslan hafi verið tekin af honum í júní 2012 hafi hann aftur verið kominn með réttarstöðu grunaðs manns. Birki hafi samkvæmt samantekt embættis sérstaks saksóknara verið gerð grein fyrir því í annarri skýrslutökunni að ef fram kæmu nýjar upplýsingar sem gæfu tilefni til að breyta réttarstöðu hans yrði það gert. Birkir hafi sagt að hann vissi ekki hvað ætti að verða til þess.

Ólafur bendir hins vegar á að þessi samskipti sé ekki að finna á myndbandsupptöku af skýrslutökunni og að sérstakur saksóknari hafi ekki geta skýrt hvers vegna. Verjandi Birkis hefði ennfremur mótmælt því að þessi samskipti hefðu átt sér stað. Gegn andmælum Birkis væri hvorki hægt að ganga út frá því að hann hafi fengið áðurnefndar upplýsingar né að hann hafi gefið umrædda yfirlýsingu.

Vísar Ólafur til þess að samkvæmt lögum þurfi ný sakargögn að hafa komið fram í máli eða líklegt sé að þau komi fram til þess að hægt sé að ákæra á ný eftir að rannsókn á sakborningi hefur verið hætt. Ljóst sé að Birkir hafi fengið tilkynningu um að hann hefði ekki lengur stöðu grunaðs manns í málinu í annarri skýrslutökunni en á hinn bóginn sé ekki ljóst að honum hafi verið tilkynnt að það gæti breyst.

Ólafur segir ekki hægt að fallast á að ný gögn sem máli hafi skipt hafi komið fram sem réttlætt hafi nýja ákæru á hendur Birki enda hafi öll slík gögn legið fyrir þegar önnur skýrslutakan hafi farið fram þar sem Birkir hafi verið kominn með réttarstöðu vitnis. Þar á meðal kæra frá Fjármálaeftirlitinu sem málið gegn Birki hafi síðar verið byggt á. Slík ný gögn hefðu þá þurft að koma fram eftir að önnur skýrslutaka fór fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert