Ríkissaksóknari rannsakar lát barns

mbl.is/Eggert

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lokið rannsókn á andláti fimm mánaða gamals barns sem lést af völdum blæðinga í heila í mars sl. Málið er nú á borði ríkissaksóknara og hefur faðir barnsins verið úrskurðaður í áframhaldandi farbann.

„Málið er til úrlausnar um hvort eigi að gefa út ákæru og hvort rannsókn sé lokið,“ segir Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari í samtali við mbl.is.  

Faðir barnsins var í byrjun þessa mánaðar úrskurðaður í áframhaldandi farbann til þriðja desember nk.

Í síðasta mánuði barst lögreglu niðurstaða lífsýnarannsóknar sem beðið hafði verið eftir mánuðum saman og það var svo í lok síðustu viku sem málið fór fram lögreglu til embættis ríkissaksóknara. 

Hinn 20. mars sl. greindi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu frá því að karlmaður á þrítugsaldri, faðir barnsins, hefði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna rannsóknar á andláti fimm mánaða gamals stúlkubarns. Atvikið átti sér stað sunnudagskvöldið 17. mars sl. þegar stúlkan var ein heima með föður sínum.

Bráðabirgðaniðurstaða réttarlæknisfræðilegrar rannsóknar benti til að barnið hefði látist af völdum blæðinga í heila eftir að hafa verið hrist harkalega, eða svokallað „shaken baby syndrome“.

Maðurinn var upphaflega úrskurðaður í farbann til 23. apríl sl. en síðan þá hefur farbannið verið framlengt ítrekað í þágu rannsóknarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert