Ekki verið að óska eftir virkjanaleyfi

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Landsvirkjun styður eindregið friðlýsingu Þjórsárvera og telur sig starfa í fullu samræmi við gildandi rammaáætlun. Þetta kom meðal annars fram í máli Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í morgun þar sem rætt var um Norðlingaölduveitu og friðlýsingu Þjórsárvera. Lagði hann ennfremur áherslu á að sú breyting sem Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfisráðherra, hefði kynnt á fyrirhuguðu friðlandi sneri ekki að Þjórsárverum og fossum í Þjórsá sem rætt hafi verið um.

Hörður lagði ennfremur áherslu á að Landsvirkjun væri ekki að óska eftir virkjanaleyfi á svæðinu. Hins vegar væri fyrirtækið virkjanafyrirtæki og legði því áherslu á að halda ákveðnum kostum opnum vegna mögulegra virkjana. Landsvirkjun væri aðeins að óska eftir því að geta lagt fram tillögu að útfærslu á fyrirkomulagi á svæðinu. Ekki væri hins vegar hægt að leggja fram slíka tillögu fyrr en fyrirtækið hefði fengið formlega kynningu á mörkum friðlandsins samkvæmt ákvörðun ráðherra.

Ekki fengið aðrar upplýsingar en fjölmiðlar

Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar, benti þannig á að Landsvirkjun hefði aðeins fengið upplýsingar um málið úr fjölmiðlum enn sem komið er eins og aðrir um nákvæm áform ráðherra. Fyrirtækið hefði hvorki fengið slíka kynningu frá umhverfisráðuneytinu né Umhverfisstofnun. Eina sem fram hefði komið væri að bréf frá ráðuneytinu um málið til tveggja sveitarstjórna hefði verið lekið í fjölmiðla af einhverjum ástæðum.

Hörður lagði áherslu á að Norðlingaölduveita samkvæmt síðustu tillögu Landavirkjun væri afar hagkvæmur kostur og hún væri með allt öðru sviði og fyrri tillögur. Í raun væri sú tillaga langt frá Norðlingaöldu og alfarið utan fyrirhugaðs friðlands samkvæmt ákvörðun umhverfisráðherra. Þannig væri um að ræða helmingi minna lónssvæði en áður hafi verið gert ráð fyrir. Hins vegar gerði Landsvirkjun sér grein fyrir því að tillögu fyrirtækisins gæti verið hafnað og myndi að sjálfsögðu una því.

Gagnrýndu að horft væri einungis til laganna

Stjórnarandstöðuþingmenn lögðu áherslu á að hafa þyrfti í huga hvert markmið þingmanna hafi verið með lögunum um rammaáætlun þegar þau hafi verið samþykkt á sínum tíma. Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Pírata, varð þannig tíðrætt um mikilvægi þess að horfa til anda laganna í stað þess að horfa aðeins í lagabókstafinn. Sakaði hún sem gerðu það um bókstafstrú á lögin og sagði slíkt fremur eiga heima í alræðisríkjum. Hörður svaraði því til að það hlyti að þurfa að fara eftirlögunum og það gerði Landsvirkjun.

Fulltrúar náttúruverndarsamtaka mættu einnig á fundinn og lýstu vonbrigðum sínum vegna ákvörðunar ráðherra. Tillaga hans væri sú sama og Landsvirkjunar að þeirra áliti. Þá sagði Árni Finnsson, formaður Náttúrverndarsamtaka Íslands, að það væri slæmt ef rammaáætlun væri aðeins hugsuð þar til næsta ríkisstjórn tæki við völdum og þá yrði henni breytt. Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, benti hins vegar á að rammaáætlun væri ekki friðlýsing og eðlilegt að hún væri til endurskoðunar ef tilefni teldist til þess.

Sögðu Landsvirkjun njóta sérmeðferðar

Fulltrúar náttúruverndarsamtakanna gagnrýndu ennfremur hvernig staðið hefði verið að ákvörðun umhverfisráðherra og sögðu Landsvirkjun njóta sérmeðferðar í þeim efnum. Fyrirtækið hafi fengið að koma með athugasemdir við fyrri friðlýsingaráform eftir að frestur til þess rann út. Náttúruverndarsamtök hefðu ekki fengið sömu aðkomu að aðdraganda ákvörðunar ráðherrans. Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, benti hins vegar á að komið hefði fram fyrr á fundinum með umhverfisráðherra að heimilt væri að koma með athugasemdir á meðan málið væri enn í ferli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert